top of page
Search
Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Örlítið um slangur á degi íslenskrar tungu og tillaga að verkefni

Eitt af því sem talið er einkenna málfar ungs fólks er það sem kallað hefur verið slangur. Hugtakið vísar í orðaforða sem einkennir ákveðna hópa eins og t.d. unglinga, skólasystkini eða félaga sem hafa sömu áhugamál. Eftirfarandi skilgreiningu má sjá í Íslenskri nútímamálsorðabók.


óformlegt orðfæri sem víkur frá viðurkenndu máli, er algengara í talmáli en ritmáli, oft af erlendum uppruna og notað í afmörkuðum hópum

Eins og skilgreiningin gefur til kynna tilheyrir slangur fyrst og fremst óformlegu máli og er því yfirleitt notað þegar við tölum við vini okkar. Slangur á síður við í samtali þeirra sem ekki tilheyra sama hópi eða ef við viljum vera viss um að allir skilji okkur. Stundum hefur slangur meira að segja verið notað sem eins konar leynimál þegar fólk talar um hluti sem það vill ekki að aðrir skilji.


Slanguryrði koma og fara og orð sem mikið voru notuð fyrir tuttugu eða þrjátíu árum eru mörg hver horfin úr málinu í dag. Sum lifa þó lengur og verða jafnvel hluti af almennu máli eins og til dæmis orðin skvísa og gæi.

En hvaðan kemur íslenskt slangur? Slangur verður oft til með orðaleikjum eða með myndmáli. Í Orðabók um slangur frá 1982 má finna eftirfarandi myndir:








Mynd 1: Myndskýringar í Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál frá 1982. Teikningar eftir Grétar Reynisson.


Á þessum myndum er verið að leika sér að slanguryrðunum fá einn á snúðinn, sem merkir að fá kjaftshögg, og taka í spaðann sem þýðir að taka í höndina á einhverjum. Hér er munni líkt við snúð og hönd við spaða. Þessi slanguryrði byggjast því á myndmáli. Slangur einkennist nefnilega af sköpunargleði og uppátækjasemi eins og sjá má á upphrópuninni hellir hellir hellir sem var stundum notuð þegar einhver varð uppvís að því að gleyma einhverju (sjá mynd 2).



Mynd 2: Samkvæmt könnun frá árinu 2000 var upphrópunin hellir hellir hellir þá þekkt sem slangur yfir það að vera heimskur eða gleyminn. Gullfiskurinn syndir nefnilega í hringi og er alltaf jafn hissa á að sjá hellinn sinn.


Lengi hefur svo tíðkast að nota ensk orð sem slangur. Orð eins og kúl og næs hafa til dæmis öll komið inn í íslensku sem slangur. Í dag eru þau þekkt í óformlegu íslensku talmáli og má meira að segja finna þau í Íslenskri nútímamálsorðabók.


Í eftirfarandi töflu má sjá dæmi um slangur sextán ára unglinga í Reykjavík árið 2000 (sjá Helgu Hilmisdóttur 2018).


Tafla 1: Dæmi um slanguryrði 16 ára unglinga í Reykjavík 2000.


Eins og sjá má á þessum lista er orðaforðinn bæði sóttur úr íslensku og ensku. Samkvæmt nýrri rannsókn á slangurorðaforða íslenskra unglinga hefur hlutfall enskra orða tvöfaldast á síðastliðnum tuttugu árum (Ragnheiður Jónsdóttir 2021).


Tölurnar benda til þess að stór hluti nýrra slanguryrða sé fenginn að láni beint úr ensku eða amerísku slangri, t.d. í gegnum sjónvarpsþætti, tölvuleiki, mím og tónlist. Að sama skapi hefur dregið úr nýsköpun sem byggist á íslensku máli og leik með tungumálið. Á degi íslenskrar tungu er því tilvalið að prófa að leika sér með málið og nota til dæmis verkefnið hér að aftan.


Til hamingju með daginn!


Verkefni


Búið til ný íslensk slanguryrði. Hvað gætuð þið kallað:

1. matsalinn í skólanum ykkar

2. rafhlaupahjól

3. símann ykkar

4. einhvern sem er skemmtilegur

5. íþróttatímann í skólanum?




Heimildir


Helga Hilmisdóttir. 2018. Íslenskt unglingamál í alþjóðlegu samhengi. Skírnir, vor 2018:58–74.


Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson, Örnólfur Thorsson. 1982. Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Reykjavík: Svart á hvítu.


Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.


Ragnheiður Jónsdóttir. 2021. Enska í slangurorðaforða unglinga á Íslandi. Skírnir, haust 2021:379–408.


559 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page