top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

„Þetta teiti var svo lit marr þú hefðir átt að mæta gaur“



Eins og fram hefur komið í færslum hér í blogginu þá erum við m.a. að rannsaka slangurorðaforða unglinga. Kannanir á slangri voru lagðar fyrir unglinga á Íslandi með tuttugu ára millibili, sú fyrri haustið 2000 en sú seinni veturinn 2019‒2020, og gefa svörin við þeim ágæta vísbendingu um slangurorðaforðann og þróun hans. Þátttakendur voru beðnir um að nefna slanguryrði yfir gefin hugtök en meðfylgjandi mynd sýnir dæmi um svör yfir hugtakið PARTÍ, annars vegar handskrifuð svör þátttakenda 2000-könnunarinnar og hins vegar svör þátttakenda 2020-könnunarinnar sem var rafræn.



Lítum nánar á svörin undir liðnum PARTÍ. Samtals bárust 910 svör undir þeim lið í fyrri könnuninni en 993 svör í þeirri seinni. Taflan hér að neðan inniheldur fimm algengustu svörin en hér hafa verið flokkuð saman orð sem túlka má sem tilbrigði við sama grunnorð.

Ýmislegt athyglisvert kemur í ljós þegar svörin eru borin saman en hér verður aðeins tæpt á örfáum atriðum. Í fyrsta lagi má nefna fjölbreyttan rithátt orða eins og partí og djamm í 2020-könnuninni þar sem stafamargföldun og fleiri aðferðir eru notaðar til að gefa til kynna tiltekinn framburð eða raddstyrk (sjá umfjöllun um áhrif stafrænnar tækni á ritun, t.d. Isenmann 2014 og greinar í Ritinu 3, væntanl. í des. 2021). Í öðru lagi má benda á aðlögun enska orðsins jam sem er oftast skrifað djam í fyrri könnuninni en djamm í seinni könnuninni.

Síðast en ekki síst er athyglisvert að gömul innlend orð eins og teiti og veisla skuli halda velli og að bókstafurinn ‘z’ komi jafnvel fyrir. Þessi orð (ásamt orðum eins og hóf, samkvæmi og gleðskapur sem einnig bárust) eru ekki mjög algeng í venjulegu talmáli og því má vel túlka þau sem slanguryrði í máli unglinga þrátt fyrir að þau séu ekki flokkuð sem slík í orðabókum. Samhengi og túlkun viðmælenda ræður í raun mestu um það hvað telst slangur (sjá Coleman 2014; Helgu Hilmisdóttur 2018).


Eftirfarandi eru dæmi sem þátttakendur 2020-könnunarinnar bjuggu til og innihalda slanguryrði yfir partí:


1. Þetta teiti var svo lit marr þú hefðir átt að mæta gaur
2. gaur, eigum við að drulla okkur í veislu og drekka reeb og smoka og verða fokking freðnir og á rassgatinu
3. þetta verður algjör veisla fullt af sjomlum og nóg af mjólk
4. Fellarnir voru alltof freðnir í hittingnum um helgina
5. Getum við farið heim, þetta partí sökkar
6. Djöfull var þetta partý LIT
7. sælir ertu ekki til í partei

Málfar unglinga, orðaforði og orðmyndunarleiðir taka stöðugum breytingum sem brýnt er að rannsaka. Til gamans ljúkum við þessari færslu á nærri fjörutíu ára gömlum hljóðbrotum úr könnun útvarpsmannsins Páls Heiðars Jónssonar á skemmtanalífinu í Reykjavík. Þau hljómuðu nýlega í útvarpsþættinum Lestinni á Rás 2 og gefa örlitla innsýn inn í menningu og málfar ungmenna árið 1973.






Heimildir


Anna M. Clausen og Kristján Guðjónsson. 2021. Lestin. Ríkisútvarpið. Rás 2. 3. júní. Sótt af <https://www.ruv.is/utvarp/spila/lestin/23619/7hr8r2>.


Coleman, Julie. 2014. Global English Slang: Methologies and Perspectives. Routledge, London.


Helga Hilmisdóttir. 2018. Íslenskt unglingamál í alþjóðlegu samhengi. Skírnir 192:59–74.


Isenmann, Vanessa. 2014. Computer-mediated communication. Orð og tunga 16:69–91.




136 views0 comments
bottom of page