top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

SLAY! Að hafa vald á orðinu

Updated: Oct 13, 2021

Unglingar víða um heim kannast við það að fá kjánahroll, finnast fyndið eða verða jafnvel pirraðir þegar fullorðið fólk, ekki síst foreldrar þeirra, nota slanguryrði sem tilheyra málheimi yngri kynslóða. „Það er eiginlega óeðlilegt og svolítið rangt,“ sagði viðmælandi Lønsmann (2009, þýð. höf.) í danskri rannsókn, til að útskýra hvers vegna honum þætti fyndið að heyra pabba sinn segja LOL (laughing out loud). „Maður þarf bara að passa sig að nota ekki eitthvað sem maður veit að þau [fullorðna fólkið] vita kannski ekki, hafa ekki vald á sko,“ sagði viðmælandi Sigrúnar Helgu Snæbjörnsdóttur (2016) um muninn á samskiptum unglinga við foreldra sína annars vegar og vini sína hins vegar. Í orðum þessara unglingspilta birtist sú útbreidda skoðun að fullorðið fólk hafi ekki sama vald á slangri og unglingar.


Meðfylgjandi er skjáskot af nýlegu tísti félags- og barnamálaráðherra sem brá á leik með því að nota slanguryrðið slay um sjónvarpsseríu. Eflaust hefur það bæði vakið athygli og ýmiss konar viðbrögð enda má deila um það hvort ráðherrann hafi fullt vald á orðinu, þ.e. kunni og megi nota það, ef svo má segja. Nýlega hefur nokkuð borið á notkun orðsins slay meðal ungmenna hér á landi en það virðist eiga sér lengri sögu sem slanguryrði erlendis.



Grunnmerking ensku sagnarinnar to slay er ‘að slátra’ en samkvæmt veforðabókinni Dictionary.com virðist hún fyrst hafa verið notuð sem slanguryrði í ensku á nítjándu öld yfir það ‘að líta vel út’. Í stuttu máli getur orðið merkt ‘að negla eitthvað’, þ.e.a.s. ‘að gera eitthvað vel’ en þó hefur það jafnframt ýmsar annars konar tengingar. Slanguryrðið slay varð ekki síst vinsælt í samfélagi samkynhneigðra og dragdrottninga á tíunda áratug tuttugustu aldar en komst nýlega í almennari notkun þegar söngkonan og áhrifavaldurinn Beyoncé tók það upp á sína arma í tengslum við valdeflingu svartra kynsystra sinna (Chatzipapatheodoridis 2017).




Slangur er ekki síst áhugavert rannsóknarefni vegna þess hve flókið reynist að skilgreina það. Hægt er að fletta upp ótal skilgreiningum í orðabókum sem ná misvel utan um slangurhugtakið en mikilvægt er að átta sig á því að samhengi skiptir máli við túlkun því eitt og sama orðið getur skapað mismunandi hugrenningatengsl eftir því hver notar það, hvenær og hvernig. Í formála orðabókarinnar Dictionary of American Slang segir m.a.: “No word can be called slang simply because of its etymological history; its source, its spelling, and its meaning in a larger sense do not make it slang. Slang is best defined by a dictionary that points out who uses slang and what “flavor” it conveys” (Wentworth og Flexner 1967). Þannig meinar eldri borgari sem segist ætla að spila og drekka te líklega ekki það sama og unglingur sem leikur sér að því að nota sömu orð sem slangur yfir það ‘að spila tölvuleiki og drekka áfengi’.


Margir þættir skipta máli við merkingarsköpun í samskiptum og sumir fræðimenn ganga svo langt að segja að líkamstjáning og svipbrigði séu mun mikilvægari en sjálf orðin sem notuð eru við að koma merkingu til skila. Samkvæmt kenningu sem dr. Albert Mehrabian (1981) setti fram og nefnist 7-38-55-reglan þá skipta orð ekki nema 7% máli við merkingarsköpun, raddbeiting og hljómfall skiptir um 38% máli en líkamstjáning um 55%. Ef til vill kristallast kenningar sem þessi í síaukinni notkun stafrænna táknmynda (e. emojis) til að túlka svipbrigði og aðra nauðsynlega þætti sem tapast í ritun?


Heimildir:

Chatzipapatheodoridis, Constantine. 2017. Beyoncé’s Slay Trick: The Performance of Black Camp and its Intersectional Politics. Open Cultural Studies 1:406–416.


Lønsmann, Dorte. 2009. From subculture to mainstream: The Spread of English in Denmark. Journal of pragmatics 41:1139–1151.


Mehrabian, Albert. 1981 (2. útg.). Silent Messages: Implicit Communication of Emotions and Attitudes. Wadsworth, Belmont.


Sigrún Helga Snæbjörnsdóttir. 2016. „Krakkar tala um það sem er í kringum þau ... og það er ekki það sama 1973 og 2015.“ Reynsla unglinga og unglingastigskennara af þróun orðaforða og málnotkunar hjá unglingum. Óútgefið meistaraprófsverkefni. Háskólinn á Akureyri, Akureyri.


Wentworth, Harold og Stuart Berg Flexner. 1967. Dictionary of American Slang. Thomas Y. Crowell Co, New York.


483 views0 comments
bottom of page