top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Þýðir örugglega örugglega að eitthvað sé öruggt?

Ef einhver spyr mig hvort ég ætli að fara norður um jólin og ég svara „já, örugglega“, hvað skyldi ég þá eiga við? Sennilega myndi viðmælandi túlka skilaboðin sem svo að mér þætti trúlegt að ég færi frekar en að ég væri alveg búin að ákveða mig. En hvað segja orðabækur um þetta?


Samkvæmt Íslenskri orðabók frá 2004 merkir atviksorðið örugglega ‚áreiðanlega‘ en í Íslenskri nútímamálsorðabók er annars vegar gefin skýringin ‚áreiðanlega, án efa‚ vafalaust‘ og hins vegar ‘á sannfærandi hátt, af öryggi‘. Þessar skýringar orðabókanna tveggja gefa þó ekki alveg rétta mynd af notkun orðsins og gagnast lítið nema ef sá sem notar orðabækurnar kunni íslensku og viti hvernig orðinu er beitt í samtölum. Orðið kemur nefnilega sjaldnast fyrir þar sem mælendur geta verið vissir í sinni sök. Algengara virðist að það komi fyrir í samhengi þar sem mælendur eru einmitt óöruggir, þurfa að giska eða eru beðnir um að tjá skoðun sína á því hvað þeir myndu gera við ákveðnar aðstæður, eins og eftirfarandi dæmi úr málheildinni Íslenskt unglingamál sýnir: „Hvað ætlar þú að fara í eftir tíunda bekk? Örugglega fara í ME eða eitthvað.“ Ekki er óalgengt að slíkar merkingarbreytingar eigi sér stað í tungumálum og til samanburðar má nefna orðið säkert í sænsku sem er notað á svipaðan hátt og íslenska orðið örugglega. Svensk ordbok (2021) skýrir merkingu orðsins sem ‘(mjög) líklegt en yfirleitt ekki alveg sjálfgefið‘ (þýð. höf.).


Lítum á annað dæmi úr málheildinni Íslenskt unglingamál sem geymir safn viðtala við ungt fólk í grunn- og framhaldsskólum landsins. Málheildin er gott tæki til að fá yfirsýn yfir notkun orða í samtölum og í hvers konar samhengi ákveðin orð koma fyrir. Í dæmi (1) er umræðustjóri að spyrja fjóra grunnskólanema um tónlist. Hópurinn hefur fengið að heyra brot úr nýju lagi eftir Kanye West og umræðustjórinn spyr hvort þau þekki tónlistarmanninn (lína 1).

Skarphéðinn svarar fyrst neitandi en segir svo að „þetta er örugglega f Monsters and men eða eitthvað sko.“ Í svarinu kemur bæði fyrir atviksorðið örugglega og halinn eða eitthvað sko sem gerir svarið heldur loðið (lína 4), enda kemur svo í ljós að svarið er rangt (lína 5). Einnig bætir Skarphéðinn því við sem eins konar útskýringu að hann hafi sagt „bara eitthvað“ (lína 10).


Hitt dæmið sem ég ætla að sýna hér er tekið úr tölvuleikjaspili tveggja fimmtán ára vina, Boga og Svenna. Í (2) eru þeir að spila Grand Theft Auto. Bogi leggur til við vin sinn að þeir taki þátt í fjársjóðsleik sem snýst um að finna kistu sem geymir óvæntan vinning. Áður en leitin hefst spyr Svenni vin sinn hvað þeir fái fyrir að finna fjársjóðinn (lína 3–4).


Bogi bregst við spurningunni en á í augljósum vandræðum með að orða svarið sem strax bendir til þess að einhver vafi leiki á upphæðinni (lína 3–4). Hann leiðréttir sig og notar orðið örugglega tvisvar og áhersluorðið alveg. Nokkru seinna kemur svo í ljós að verðlaunin eru gömul og gagnslaus byssa og báðir strákarnir verða því fyrir miklum vonbrigðum. Bogi hefur því alls ekki vitað fyrir fram hver verðlaunin voru heldur var hann aðeins að giska á það sem hann taldi líklegt.


Dæmin tvö sem hér hefur verið fjallað um eru dæmigerð fyrir notkun örugglega í samtölunum sem hljóðrituð voru innan unglingamálsverkefnisins. Orðið virðist ekki koma fyrir í samhengi þar sem mælendur eru öruggir en hefur þó þessa bókstaflegu merkingu þegar það kemur fyrir í spurningum: „ætlarðu ekki örugglega að koma í kvöld?


Ósamræmi á milli orðskýringa í orðabókum og raunverulegra notkunardæma í samtölum skýrist ef til vill af því að í orðabókavinnu er sjónum oft beint að notkun í stuttum og oft stöðluðum segðum fremur en að skoða merkingu í stærra samhengi. Stundum gleymist að huga að málbeitingu notenda, þ.e. í hvaða tilgangi orðið er notað í stærra samhengi. Þar kemur til kasta málbeitingarfræði (e. pragmatics) en sú grein málvísindanna snýst einmitt um það hvernig málinu er beitt í samskiptum við aðra.


Með tilliti til mikillar fjölgunar annarsmálshafa á Íslandi sem ekki hafa sömu tilfinningu fyrir málbeitingu og móðurmálshafar er ef til vill ástæða til að fara vel yfir þessi atriði í orðabókum og öðru stuðningsefni sem ætlað er þeim sem eru að læra málið. Ef til vill þarf að laga skýringar á borð við þessa að raunverulegri notkun málnotenda. Hvað varðar uppflettiorðið örugglega væri alla vega við hæfi að bæta við annarri merkingu, þ.e. ‚mjög líklega en alls ekki víst‘.


Heimildir:

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Íslensk orðabók. 2004. Mörður Árnason (ritstj.). Reykjavík: Edda.

Svensk ordbok. 2021. Svenska Akademien.

115 views0 comments

Comentarios


bottom of page