top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Að setja atburði á svið

Updated: May 27, 2020

Eitt af því sem virðist einkenna unglingamál almennt er tíð notkun sviðsetninga. Ég vil ekki kalla þetta beinar tilvitnanir eins og stundum er gert í málfræðilegri umræðu, því eins og Deborah Tannen (1989) og margir aðrir hafa bent á er hér sjaldnast verið að hafa eitthvað orðrétt eftir fólki. Í sviðsetningum bregða unglingarnir sér á leik. Þeir breyta röddinni, nota leikhljóð, svipbrigði, líkamstjáningu og grípa jafnvel til leikmuna. Tilgangurinn er því ekki endilega að vera nákvæmur heldur er frekar leitast við að skapa einhver hughrif og reyna að hafa áhrif á skoðun hinna þátttakendanna. Þannig getur t.d. mælandi gripið til þess að nota skræka og pirrandi rödd til að gefa til kynna skoðun sína á óvinsælum kennara.

Seint á síðustu öld vakti Ulla-Britt Kotsinas athygli á því að unglingar í Stokkhólmi væru að þróa með sér nýja aðferð til að gefa til kynna sviðsetningar. Upptökur á unglingamáli sýndu nefnilega gífurlega sprengingu í notkun agnarinnar ba’ (stytting á bara). ba’ í sænsku hefur m.a. verið borið saman við ensku ögnina like eins og hún er notuð í segðum á borð við and she was like oh my god (sjá einnig Rahtje 2008 um bare sådan noget i dönsku). Um árið 1996 tók ég þátt í norrænni rannsókn um unglingamál þar sem ég reyndi að skoða sérstaklega hvort svipaða þróun mætti merkja í íslensku unglingamáli. Ég fann nokkur dæmi þess að unglingar notuðu bara á undan sviðsetningum en þetta var þó alls ekki algengt. Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir (2009) kemst að svipaðri niðurstöðu í BA-verkefni sínu Beinar ræður í samtölum þar sem hún skoðaði talmál fullorðinna (ÍSTAL).

Þegar litið er á gagnagrunn rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál er þó ljóst að ýmislegt hefur gerst á undanförnum árum. Í efninu eru fjölmörg dæmi um það sem mætti kalla sviðsetningar á fyrri (eða ímynduðum) samtölum. Mikill meirihluti þessara sviðsetninga hefst á bara eitthvað, eitthvað eða bara.

Eftirfarandi samtal er úr samræðum þriggja sautján ára stúlkna á höfuðborgarsvæðinu. Þær sitja þrjár saman í bíl og spjalla um daginn og veginn. Í eftirfarandi samtalsbroti er Inga að segja vinkonum sínum Sesselju og Petru sögur af kærastanum sínum sem vinnur á skyndibitastað í miðbænum þar sem frægir leikarar eiga það til að detta inn til að fá sér í svanginn. Hér segir Inga frá samskiptum hans við Cole Sprouse.




Hér vil ég í fyrsta lagi benda á að Inga var ekki viðstödd þennan atburð sjálf heldur er hún að vitna í frásagnir annarra, að öllum líkindum kærastans. Því er hæpið að tala um beina ræðu í þessu tilfelli. Að sama skapi tel ég ólíklegt að Cole Sprouse hafi sagst leika í „this thing here dururu“ og má telja nokkuð öruggt að þessi framsetning sé frá Ingu komin. Henni hefur ekki þótt mikilvægt að þessu sinni að telja upp nákvæmlega afrek Coles í kvikmyndaheiminum.

Af fyrri samskiptum stúlknanna má ráða að kærastinn er enskumælandi og því sennilegt að öll samskiptin sem vitnað er til hafi farið fram á ensku alveg eins og sviðsetning Ingu gefur í skyn. Þetta þarf þó ekki alltaf að fara saman því stundum eiga mælendur það til að sviðsetja samtal á öðru tungumáli en notast var við í upphaflega samtalinu.

Í brotinu birtast samskipti kærastans við vinnufélagann (lína 18), kærastans og Cole Sprouse (lína 19 og 21), seinni tíma samskipti Ingu og kærastans (lína 21) og orðaskipti samstarfsfélagans við Cole (24, 25, 27 og 29). Samtals eru þetta fjórar raddir og samskipti sem eiga sér stað á tveimur ólíkum tímum, þ.e. þegar Cole Sprouse gengur inn á veitingastað í Reykjavík og þegar kærastinn rekur söguna fyrir Ingu og hún skammar hann fyrir að vera dónalegur. Í frásögn sinni gefur Inga skýrt til kynna þegar ný persóna fær orðið. Sex sinnum notar hún orðasambandið bara eitthvað, þrisvar sinnum bara, og einu sinni lýkur hún sviðsetningu á eitthvað (lína 18). Oft er þessi kynning borin fram mjög hratt og óskýrt (merkt með hornklofum >eitthvað<) og stundum er eins og hún segi eitthvað í líkingu við baeikka. Það myndi því ekki koma mér á óvart ef þessi notkun bara eitthvað muni þróast enn frekar á næstu árum og að einhver óskýr samsuða úr þessum tveimur orðum muni í framtíðinni festa sig í sessi sem merki til að gefa til kynna sviðsetningar í samtölum íslenskra unglinga.

Heimildir

Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir. 2009. Bein ræða í samtölum. BA-ritgerð. Háskóli Íslands.

Rathje, Marianne. 2008. Generationssprog - myte eller virkelighed? Nyt fra sprognævnet 4/2008.


Tannen, Deborah. 1989. Talking voices: Repetition, dialogue, and imagery in conversational discourse. Studies in Interactional Sociolinguistics 6. Cambridge University Press.

163 views0 comments
bottom of page