top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Ögglí og fögglí í Reykjavík

Updated: May 15, 2021

Stundum er bara eitthvað í umhverfinu sem kallar á stuttan pistil eða athugasemd. Að þessu sinni langar mig að benda á orðið ugly sem vakið hefur forvitni mína fyrir ýmsar sakir. Það sem kannski fyrst vakti athygli mína var flennistórt vegglistaverk sem blasir við mér þegar ég mæti í vinnuna á morgnana. Veggurinn á myndinni hér að neðan er við Smiðjustíg.Aðeins neðar á Laugaveginum var svo þessi (en er nú horfin):

Hér er sennilega á ferðinni höfundamerkingar listamannanna, en tilgangurinn með þessum pistli er þó ekki að ræða veggjalist sem slíka. Í stað þess langaði mig að fjalla stutt um orðið ugly eins og það kemur fyrir í slangurorðakönnuninni sem lögð var fyrir 2020 og fjallað hefur verið um í fyrri pistlum.


Orðið ugly kemur fyrir 273 sinnum í svörunum í ýmsum myndum (sem slanguryrði yfir 'ljótur'). Eftirfarandi listi sýnir örfá dæmi:


ugly, uglie, ugley, ugli

uuuugly, uglyyy

öglí, ögglí

úglí, ogly

ugly bastard, ugly as a f***k,ugly motherfokker, ugly ass, ugly mofo

fugly, fuglý, bugly, krugly


Af svörunum að dæma má sjá að orðið er mikið notað af unglingum. Einnig er nokkuð ljóst að unga fólkið á Íslandi er vel að sér í amerísku slangri, því að í svörunum mátti einnig sjá 50 tilvik tengdra orða, þ.e.a.s. fugly (49), bugly (1) og krugly (1).


Samkvæmt Merriam-Webster orðabókinni má rekja orðið fugly, sem er stytting á fucking ugly, a.m.k. aftur til ársins 1980. Hin orðin, bugly og krugly, eru ekki nefnd í hefðbundnum orðabókum á borð við Merriam-Webster en má finna í Urban Dictionary. Þar er orðið bugly útskýrt sem stytting á frasanum butt ugly en krugly er talið vísa í krusty ugly person. Hér verður þó að taka tillit til þess að Urban Dictionary er orðabók sem unnin er af notendum og því engin trygging fyrir því að orð og útskýringar sem þar eru birtar endurspegli útbreidda notkun í samfélaginu. Þó má benda á að í þessu tilviki hefur orðinu bugly verið bætt við af sex ólíkum notendum og fjölmargir hafa samþykkt orð og skilgreiningu með því að smella á þumal sem vísar upp. Aðeins einn notandi hefur hins vegar fært inn orðið krugly og enginn hefur lýst skoðun sinni á orðinu.


Fyrir málfræðinga sem eru að skoða unglingamál er orðabók eins og Urban Dictionary kærkomin viðbót í orðabókaflóruna. Þegar ég tók þátt í mínu fyrsta rannsóknarverkefni um unglingamál árið 2000 kom býsna oft fyrir að við þurftum að leita til unglinga við greiningu efnisins. Í svörunum voru nefnilega fjölmörg orð sem þau höfðu tekið úr amerísku slangri sem við sem eldri vorum könnuðumst ekki við. Nú á dögum er hins vegar oft hægt að fá svör í orðabókum á borð við þessa.Heimildir


Merriam-Webster.com Dictionary: https://www.merriam-webster.com/dictionary/fugly (sótt 14. maí 2021).


Urban Dictionary: https://urbandictionary.com (sótt 14. maí 2021).

64 views0 comments

Comments


bottom of page