top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

Án gríns!

Updated: Dec 14, 2021

Orðasambandið án gríns (einnig án djóks) er ekki nýtt í málinu en svo virðist sem unglingar noti það nú á nýjan hátt. Lítum á tvö brot úr gömlum viðtölum sem sýna hefðbundna notkun þess. Fyrra dæmið birtist í tímaritinu NT árið 1985 en það er brot úr viðtali við ungan mann sem er titlaður tölvari. Síðara dæmið er úr viðtali við nema sem birtist í Morgunblaðinu vorið 1972.

(1) Hann hefur mikið að gera, stekkur fram og til baka og athugar hin og þessi tæki, printera, segulbandsstöðvar, stjórnstöðvar, seguldiska, módem og hvað þetta nú allt heitir. Þegar blaðamaður spyr Þórarinn að því í hverju starf hans felist, hlær hann og spyr hvort blaðamaður sé með nógu mikið af blöðum með sér. „Nei, án gríns,“ segir hann „það má skipta þessu í tvennt í höfuðatriðum þ.e. í sívinnslu og runuvinnslu.
(2) „Uss, ég er bara í þessu til þess að þurfa ekki að vinna á veturna,“ sagði Árni og hló við er við spurðum hann hvers vegna hann hafði farið í landspróf. „En svona án gríns“, bætti Árni við, „þá hef ég ætlað mér að fara í framhaldsnám, og jafn vel í Háskólann.“

Dæmin tvö sýna hvernig orðasambandið án gríns er notað til að marka skil í frásögninni. Með því að nota orðasambandið án gríns gefur mælandi til kynna að fyrri orð hafi verið sögð í hálfkæringi en að nú sé von á raunsærri lýsingu á atvikum. Um þessar mundir virðist ungt fólk ekki síst nota orðasamböndin án gríns og án djóks til þess að leggja áherslu á orð sín eða til að taka undir með öðrum. Einnig eru þau notuð sem e.k. upphrópun til að tjá undrun eða hneykslun og koma þá fyrir sem eigin lota eftir að búið er að segja það sem verið er að leggja áherslu á. Þau koma víða fyrir bæði í hlaðvörpum sem ungt fólk heldur úti og í hljóðupptökum rannsóknarverkefnisins. Í skólasamtölum sem tekin voru upp á vegum verkefnisins kemur án gríns 21 sinni fyrir, án djóks 13 sinnum og grínlaust einu sinni. Í dæmi (3) spilar umsjónarmaður samtalsins lag með hljómsveitinni Sigurrós og biður nemendurna um að spjalla um það.


Fljótlega eftir að fyrstu tónarnir byrja að hljóma spyr Álfheiður lágri röddu hvaða lag þetta sé. Adam lýsir því sem sad auglýsingatónlist og uppsker hlátur. Athugasemdin fellur greinilega í kramið hjá stúlkunum og Inga tekur undir með orðunum án gríns og leggur áherslu á fyrra orðið. Hún notar því orðasambandið sem eins konar endurgjöf þar sem hún áréttar sannleiksgildi þessarar lýsingar. Sams konar notkun á orðasambandinu kemur fram í dæmi (4) þar sem nemendur ræða Facebook-notendur.

Þarna útskýrir Heiður að þeirra kynslóð noti Facebook ekki lengur. Guðmundur tekur undir með því að segja en umsjónarmaður hlær við. Viðbrögð við hlátrinum birtast síðan í orðum Adda, án gríns, sem hann notar til að staðfesta og leggja áherslu á sannleiksgildi þess sem Heiður heldur fram.


Um þessar mundir er unnið að uppsetningu samtalsorðabókar á netinu sem hefur þann tilgang að varpa ljósi á orð og orðasambönd sem koma einkum fyrir í talmáli. Þar er meðal annars að finna nýlegt hljóðdæmi um notkun orðasambandsins án gríns í samhengi: https://samtalsordabok.arnastofnun.is.



Heimildir:


Ef ég fell, þá fer ég bara aftur: Rætt við nokkra nemendur úr Réttarholtsskóla. 1972. Morgunblaðið, 28. maí, bls. 20.


„Fyrst horfa menn með skelfingu á öll ósköpin“ — segir Þórarinn Pálmi Jónsson tölvari. 1985. NT, 3. ágúst, bls. 12.

108 views0 comments
bottom of page