top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Urg eða steiktar raddir

Í Ameríku er eitt helsta umkvörtunarefni eldra fólks varðandi málnotkun unglinga það sem á ensku hefur verið kallað creaky voice eða vocal fry. Á íslensku hefur þetta fyrirbæri verið kallað urg og merki ég slíka raddbeitingu með kössum (#) eins og hefð er fyrir innan samtalsfræðinnar.


Urg myndast í röddinni þegar raddböndin hreyfast hægt og ójafnt. Misjafnt er hvernig og hversu mikið urg er notað í tungumálum. Sem dæmi má nefna að urg er mjög algengt í máli bæði finnsku- og sænskumælandi Finna. Ég þekki ekki til ítarlegra rannsókna á urgi í Finnlandi en mér þætti forvitnilegt að vita hvað slík rannsókn myndi leiða í ljós. Mín upplifun er nefnilega sú að urgið þar tengist ákveðnum hópum í samfélaginu (t.d. eldri konum sem starfa við stjórnsýslu) auk þess sem ég held að urgið hafi líka verið notað á merkingarbæran hátt. Það er ekki notað tilviljanakennt í samtölum heldur hefur það ákveðnu hlutverki að gegna t.d. varðandi lotuskiptin.


Töluvert er um urg í unglingasamtölunum sem ég hef verið að skrá að undanförnu. Mér sýnist á öllu að urgið sé að nokkru leyti persónubundið, þ.e. það er misjafnt hvort og þá hversu mikið hver einstaklingur notar urg. Í samtalinu sem ég er að skrá núna eru fjórir þátttakendur, tvær stúlkur og tveir drengir á sextánda aldursári. Ein stúlknanna notar urg töluvert mikið, annar drengjanna eitthvað aðeins en hinir mun minna. Einnig finnst mér við fyrstu sýn nokkuð augljóst að það er ekki tilviljunum háð hvar urgið kemur fyrir í þessum samtölum.

Án þess að hafa skoðað þetta mikið sýnist mér t.d. að urg komi sérstaklega oft fyrir þegar umræðuefni er að ljúka, og þá oft í tengslum við orðræðuögnina #já# eða #jájá#. Einnig sýnist mér að þátttakendur noti urg þegar þeir eru á öndverðri skoðun. Í eftirfarandi broti eru þátttakendur að velta því fyrir sér hverjir hlusti á hljómsveitina Guns ’n Roses. Þó að hópurinn hafi þegar komist að þeirri niðurstöðu að það séu aðallega „pabbar“ sem hlusta á svona gamla rokktónlist bendir Líf á að alltaf séu einhverjir á þeirra aldri sem hlusti líka (lína 1–2).

Þórarinn tekur undir með Líf, en eftir 0,8 sekúndna hlé í samtalinu (sem er töluvert langt fyrir svona samtal) andmælir Ófeigur með því að benda á að þeir séu nú mjög fáir (lína 8). Lotan hefst á orðræðuögninni ja sem gefur strax til kynna að mælandi vill bæta einhverju við sem er ekki alveg í samræmi við ályktun fyrri mælanda. Saman mynda urgið, orðræðuögnin og pásurnar eina heild sem viðmælendur eiga ekki erfitt með að túlka. Hann setur svo álit sitt fram á enn afdráttarlausari hátt einni lotu síðar eftir að Líf dregur túlkun hans í efa (ég þekki engan).


Þriðji og síðasti flokkurinn sem ég hef tekið eftir má lýsa sem orðum og frösum sem fengin eru að láni úr amerísku unglingamáli. Í samtalsbrotinu er Ragnhildur að segja frá fyrsta árinu sínu í skólanum. Hún lýsir því hvernig hún hafi passað sig á að vera alltaf með hóp af vinum í kringum sig. Líf, vinkona hennar, tekur undir og segir frá því að þær hafi jafnvel fengið að farsa saman á klósettið (lína 1–2).Ragnhildur bætir við þetta að henni hafi fundist að hún gæti ekki farið ein í mat „því annars mundi ég bara vera ein“. Stjórnandi kemur þá með endurgjöf (lína 8) en áður en henni lýkur bætir Ragnhildur við orðinu #$foreve::r$# og hinir þátttakendurnir fara að hlæja.

Í þessu tilviki notar Ragnhildur ekki aðeins enska orðið heldur ber hún það líka fram eins og hún sé að herma eftir unglingsstúlku í amerískri grínmynd (sem skýrir kannski hláturinn). Ef til vill mætti segja að orð eins og forever sé einskonar lykilorð í lífi margra unglinga. Orðið heyrist oft í popptextum og í upphrópunum í unglingamyndum og svo framvegis. Til að tengja þetta betur við ameríska unglingamenningu notar mælandi urg (sbr. það sem á ensku er kallað contextualization cue). Þó að notkun á urgi sé alls ekki bundið við unglingsstúlkur í Norður-Ameríku virðist almenningur tengja notkun þess einkum við ungar konur. Hér nægir að benda á fjöldann allan af blaðagreinum og YouTube-myndbönd sem sýna þetta.


Áhugavert gæti verið að skoða urg betur í samtölum unglinga, sérstaklega í þeim upptökum þar sem urg er mikið notað. Ég held að slík rannsókn myndi leiða í ljós að urg sé notað á kerfisbundinn hátt í íslensku og að ef til vill sé notkun þess að breytast og aukast um þessar mundir.

92 views0 comments

Comments


bottom of page