top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Unglingar og eitthvað svoleiðis – um opna flokka í samtölum

Vorið 1993 gerðu nokkrir fræðimenn í Noregi stóra rannsókn á hversdagslegum samtölum unglinga í London (sjá Stenström, Andersen og Hasund 2002). Þátttakendur voru beðnir um að ganga með lítinn hljóðnema á sér og hljóðrita öll samskipti í þrjá til fimm daga. Þeir voru beðnir um að taka upp samtöl við ólíkar aðstæður, hvort sem um var að ræða almennt spjall við foreldra, systkini og vini, formlegri samskipti í verslunum og bókasöfnum eða stutt samskipti við samnemendur og kennara í skólastofu og á skólalóð. Tilgangurinn var meðal annars að kortleggja helstu einkenni unglingamáls í stórborginni og bera saman málfar í ólíkum hverfum. Eitt af því sem var áberandi í þessari rannsókn var hversu hátt hlutfall samtalsins mátti flokka sem óljós orð (e. vague words), þ.e. orð eða orðasambönd sem hafa almenna og opna merkingu.


Orðum og orðasamböndum af þessum toga má skipta í tvo meginflokka eftir notkun. Annars vegar var um að ræða svo kölluð staðgengilsorð (e. placeholders), þ.e. orð eða orðasambönd sem notuð eru í stað annarra hugtaka (sjá Dunes 1980). Í þessum flokki var orðið thing notað áberandi oft í ensku upptökunum. Í upptökum íslenska unglingamálsverkefnisins má sjá svipuð tilvik þar sem orð á borð við dót, dæmi, drasl og sjitt eru notuð sem staðgenglar.

Hinn flokkurinn var mun stærri og fjölbreyttari og slík orð má ef til vill kalla merki fyrir óskýra flokka. Vitnað er í Chanell (1994) sem nefnir dæmi eins og bread or something. Þar eru orðasambönd eins og or something kölluð vague category identifier. Í slíkum tilvikum þurfa viðmælendur að nota þekkingu sína á heiminum til að skilgreina hvað mælandi á við. Til dæmis er túlkunaratriði hvað mælandi eigi við með þegar hann segir bread or something og merkingin ræðst af samhenginu. Orðasamböndin sem þetta á við í ensku eru mjög mörg, en sem dæmi má nefna orðasambönd eins og and that kind of stuff, and so on og and all that.

Hvernig eru þessu í háttað í íslensku? Eftirfarandi lotur má finna í upptökum af höfuðborgarsvæðinu og Norðurlandi. Mælendur eru allir nemendur í níunda og tíunda bekk grunnskóla.Við úrvinnslu unglingaefnisins verður óljóst orðalag skoðað nánar. Ætlunin er að svara spurningum eins og hvaða orðasambönd koma fyrir í upptökunum og hvernig þau eru notuð í samtölunum.


Heimildir:

Chanelle, J. 1994. Vague Language. Oxford: Oxford University Press.

Dunes, E. 1980. Variation in discourse – ”and stuff like that”. Language in Society 1:13–31.

Stenström, Andersen og Hasund. 2002. Trends in teenage talk. Corpus compilation, analysis and findings. Amsterdam: John Benjamins Publishing Company.

81 views0 comments
bottom of page