top of page
Search

Um what og aðrar málnotkunarlegar tökur

Writer's picture: Helga HilmisdóttirHelga Hilmisdóttir

jess, fokk, sorrí, döh, doh, oh no, meh og oh my god! Öll könnumst við við þessi orð sem heyrast æ oftar í hversdagslegu tali fólks á öllum aldri. Íslensk börn eru ekki há í loftinu þegar þau fara að hrópa upp yfir sig ó mæ god þegar eitthvað er flott eða kemur þeim á óvart og að sama skapi kemur það fáum á óvart þegar við verðum vitni að sömu viðbrögðum hjá fullorðnu fólki.


Svona fyrirbæri hafa í alþjóðlegri umræðu verið kölluð pragmatic borrowings sem mætti e.t.v. kalla málnotkunarlegar tökur á íslensku. Málnotkunarlegar tökur eru fengnar að láni til að tjá eitthvað annað en efnislegt innihald segðarinnar. Þær geta t.d. gefið viðmælendum vísbendingar um viðbrögð, viðhorf eða þekkingarlega afstöðu mælanda, eða jafnvel gefið til kynna atriði sem tengjast samfélagslegri stöðu viðmælenda (t.d. ég er ung, kvenkyns og bý í stórborg og ég tala við þig sem jafningja). Tökurnar geta verið af ýmsum toga, t.d. orð (eða orðasambönd) sem tekin eru beint úr öðru máli, tökuþýðingar (eins og þúst og y'know), beygingar (t.d. -s til að tákna fleirtölu) eða hljómfall.

Orðin og orðasamböndin sem nefnd voru hér í upphafi pistilsins eiga það sameiginlegt að koma úr ensku. Það sem gerir þau þó sérlega áhugaverð er að þau eru mikið notuð um öll Norðurlönd.

Í grein um málnotkunarlegar tökur í norsku færir málfræðingurinn Gisle Andersen fyrir því rök að skoða þurfi mjög vel hlutverk þeirra bæði í ensku og viðtökumálunum. Mjög ólíklegt er að orð eins og plís, sorrí eða jess séu notuð eins í öllum tungumálum þar sem þau heyrast. Til dæmis er nokkuð ljóst að framangreind orð vekja önnur hugrenningatengsl og tilheyra ólíkum málsniðum í íslensku og ensku. Eins er ekki víst að við tengjum urg í rödd (eða brakrödd) við sömu hluti og íbúar í Bandaríkjunum.

Við skráningu á samtölum innan verkefnisins Íslenskt unglingamál vakti athygli mína nokkuð tíð notkun á orðinu what. Í íslensku máli hefur orðið þó nokkuð takmarkaða notkun. Það kemur t.d. ekki fyrir sem spurnar- eða tilvísunarfornafn, heldur eingöngu í þeirri merkingu sem Íslensk-ensk orðabók (1991) flokkar sem upphrópun. Til að varpa ljósi á þetta skulum skoða tvö dæmi nánar.

Fyrsta brotið er tekið úr samtali tveggja fimmtán ára drengja sem eru að spila tölvuleikinn Grand Theft Atuo. Í (1) eru Bogi og Svenni að reyna að ákveða næstu skref í leiknum. Svenni vill að Bogi hjálpi sér í verkefni sem hann hefur tekið að sér en Bogi er upptekinn við fjársjóðsleit (kallað treasure hunt í leiknum). Hann vill frekar að Svenni hjálpi sér. Til að ákveða hvað sé best að gera spyr Svenni vin sinn Boga hvað hann fái mikinn pening fyrir að finna fjársjóðinn (lína 1).


Eftir stutta pásu segir Bogi að hann fái „örugglega alveg fimmtíu ká örugglega sko“, þ.e. fimmtíu þúsund dali. Þetta er ágiskun, eins og sést m.a. á notkun Boga á atviksorðinu örugglega sem kemur fyrir tvisvar í lotunni. Þetta er talsverð há upphæð í leiknum, og eftir 0, 9 sekúndna pásu bregst Svenni við þessum nýju upplýsingum með því að nota wha::t. Sérhljóðinn er langur.

Eins og sjá má bíður Svenni þó ekki eftir viðbrögðum frá Boga. Um leið og hann lýkur lotunni tekur hann til máls að nýju og kemur á framfæri nýrri beiðni (lína 6): hann vill að Bogi merki eitthvað fyrir sig inn á kortið (hér mappið, .e. map). Hér má því slá því föstu að what er a.m.k. ekki notað í þessu tilviki til að kalla fram útskýringar eða nánari upplýsingar um það sem kemur fram í fyrri lotu. Í stað þess má segja að what gegni því hlutverki að tjá þeim sem veitti upplýsingarnar að þær hafi á einhvern hátt vikið frá því sem mælandi hafði áður gert sér í hugarlund.

Svipað er upp á teningnum í næsta dæmi sem tekið er úr umræðum fjögurra grunnskólanema og fulltrúa Árnastofnunar. Umræðurnar voru teknar upp inni á skrifstofu skólastjóra og því má segja að umgjörðin sé frekar formleg. Þegar hér er komið við sögu er stjórnandinn að ræða sjónvarpsáhorf við nemendur. Nemendurnir hafa tjáð stjórnanda að þeir horfi oft á Netflix heima, og stjórnandi gerir ráð fyrir því að þættirnir séu allir á ensku. Marta segir þá frá því að hún horfi stundum á danska þætti (lína 1).


Þessar upplýsingar Mörtu koma félögum hennar á óvart. Bæði Nanna og Þormóður bregðast við með því að nota föst orðasambönd (lína 3 og 4) sem kalla á að Marta staðfesti að hún farið með rétt mál (lína 5). Hún heldur svo áfram með því að réttlæta eða útskýra að þættirnir séu „actually“ skemmtilegir. Notkun hennar á „actually“ gefur til kynna að staðhæfing hennar kunni að stríða gegn væntingum viðmælanda. Á sama tíma bregst Þormóður við með what með rísandi lokatón. Alveg eins og í fyrra dæmi þá er Þormóður ekki að kalla eftir nánari útlistun frá Mörtu. Þess í stað tekur Nanna við keflinu. Hún útskýrir að hún myndi sjálf ekki skilja þættina sem má skilja sem útskýringu á því hvers vegna þessar upplýsingar koma henni á óvart (lína 8 og 11).

Dæmin tvö sem fjallað er um í þessum pistli gefa örlitla innsýn í notkun ungs fólks á what. Áhugavert verður að bera saman annars vegar notkun what í íslensku og á öðrum norrænum málum, og hins vegar what og önnur íslensk orð eins og ha og hvað.

Að lokum er hægt að hlusta á nokkur dæmi úr upptökunum.

Heimildir

Andersen, Gisle. 2014. Journal of Pragmatics 67: 17–33.

Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi. 1991. Reykjavík: Örn og Örlygur.

129 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page