top of page
Search
Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

Um druslur og tussur

Eitt aðaleinkenni unglingamáls er slangur og skiptir það miklu máli í samskiptum og við sköpun sjálfsmyndar. Í síðustu tveimur færslum höfum við Helga Hilmisdóttir fjallað um slangurorðakannanir sem lagðar voru fyrir unglinga á Íslandi með tuttugu ára millibili. Svör bárust frá rúmlega þúsund unglingum víðs vegar að af landinu við hvorri könnun fyrir sig. Að undanförnu hef ég verið að bera þessi svör saman og greina þau út frá ólíkum sjónarhornum. Það geri ég meðal annars til að kanna hvort þar komi fram vísbendingar um málbreytingar, áhrif frá stafrænum miðlum eða breytingar á orðaforða og rithætti tiltekinna slanguryrða.

Mynd: Fréttablaðið, Valli.


Eitt af því sem vakti athygli mína um leið og ég byrjaði að skoða svör sem bárust við fyrsta liðnum, STELPA/STÚLKA, var hve mjög slanguryrðum með neikvæða eða niðrandi merkingu fækkaði milli kannana. Þar kann þó að skipta máli að hlutfallið milli kynja annars vegar og milli grunn- og framhaldsskólanema hins vegar, var jafnara í hópi þátttakenda árið 2000, en hlutfall stúlkna og framhaldsskólanema hærra í vefkönnuninni árið 2020.


Alls bárust 2596 svör undir liðnum STÚLKA í könnuninni sem gerð var árið 2000. Um 15% (N=390) svaranna teljast neikvæð eða niðrandi orð (t.d. herfa, trunta og skessa). Um 10% (N=260) orðanna eru neikvæð og hafa auk þess kynferðislega skírskotun (t.d. hóra, píka og drusla). Til samanburðar eru orð sem telja má með jákvæða kynferðislega skírskotun (t.d. hottý og boddý) aðeins 0,6% svaranna. Alls bárust 1702 svör undir liðnum STELPA í vefkönnuninni sem gerð var skólaárið 2019–2020 og af þeim falla ekki nema um 2% (N=34) í flokk neikvæðra eða niðrandi orða. Í töflunni hér að neðan má sjá nokkur dæmi um slík orð og hversu oft þau komu fyrir.

Eins og sést á töflunni var orðið drusla nefnt 36 sinnum sem slanguryrði undir liðnum STÚLKA árið 2000 en aldrei í vefkönnuninni tuttugu árum síðar. Skýringin getur meðal annars verið sú að druslugöngur hafa verið haldnar síðan árið 2011, bæði hér á landi og víðar, í því skyni að uppræta fordóma og berjast gegn kynferðisofbeldi (sjá druslugangan.is). Þá er orðið hóra nefnt 40 sinnum og orðið tussa 48 sinnum undir sama lið árið 2000, en í vefkönnuninni kemur hvort þessara orða aðeins fjórum sinnum fyrir.


Þó svo að neikvæð og niðrandi orð yfir stelpur komi sjaldnar fyrir í nýrri könnuninni en þeirri eldri þá er ekki hægt að fullyrða að þau séu minna notuð nú en áður því tíðni þeirra hefur ekki verið rannsökuð sérstaklega. Niðurstöðurnar benda þó til þess að þróunin sé í þessa átt og þetta væri svo sannarlega fróðlegt rannsóknarefni.


317 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page