top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Staðalmyndir, lífsstíll og tungumál

Updated: Apr 20, 2021

Í upphafi verkefnatímabilsins, áður en ég fór að safna hljóðupptökum af raunverulegum samtölum unglinga, notaði ég tímann til að kynna mér menningarheim unglinga. Þetta gerði ég m.a. með því að hlusta á vinsæla tónlist og lesa lagatextana, sér í lagi þá sem voru eftir unga Íslendinga. Eitt vinsælasta lagið á þessu tímabili hét „Nei nei nei“ og var með hljómsveit sem kallaði sig Áttuna. Lagið hefur varla farið fram hjá neinum hér á Íslandi en mig langar aðeins til að rifja upp textann því hann varpar svo skemmtilegu ljósi á tengsl tungumáls, lífsstíls og staðalmynda.


Í laginu syngja þrír ungir menn ástarjátningar til aðalsöngkonu hljómsveitarinnar sem svo svarar þeim með því að vísa þeim frá, enda betra að fara ein heim en að sitja uppi með gaura eins og þessa. Sá fyrsti sem freistar gæfunnar er hipsterinn í hópnum. Sá er með gleraugu og snyrtilegur til fara þar sem hann vappar um með þrjá púðluhunda og sveiflar sér um í risastóru gróðurhúsi.


Elskan mín, veistu ekki hver ég er?

Ég er með þrjú Ká followers á Twitter

Ég á þrjá púðluhunda

Ég og þeir erum vegan

Og þetta grænmeti er heimaræktað

Við tvö gætum allt

Náð öllum okkar draumum

Á listamannalaunum

Gætum farið hvert sem er

Akranes og í Búðardal

Væri til í að búa þar, með þér


Hér má sjá ýmis lykilorð sem draga upp mynd af dæmigerðum borgarhipster: ungan mann sem er vegan, á púðluhunda, ræktar eigið grænmeti og á sér draum um að komast á listamannalaun og búa á landsbyggðinni. Hann ávarpar hana yfirlætislega sem elskuna sína en gefur strax í skyn að hún eigi að vita hver hann er, enda er hann með „þrjú ká followers á Twitter“. Stúlkan kúgast þegar hann sveiflar salatbúntinu framan í hana.


Nei nei nei nei nei nei nei

Þú ert ekki týpan sem að ég fer með heim

Strákar eins og þú að reyna spila einhvern leik

Ég sagði nei nei nei nei nei nei nei

Þú ert ekki týpan sem að ég fer með heim

Gaurar eins og þú, frekar enda ég ein


Næstur til að freista gæfunnar er slánalegur piltur í rifnum gallabuxum, hettupeysu og með sólgleraugu. Hann er staddur í bílakjallara innan um svarta jeppa þar sem hann sýnir rappstjörnutakta með félaga sínum, meðal annars með því að sitja mjög svalur á húddinu á dýrum bíl eða sitja á hækjum sér og opna faðminn á móti heiminum eins og sannur sigurvegari: „Ég er kóngurinn!“. Hann veður strax af stað með því að slá um sig með merkjavörum og bílum en kemur svo með ýmis gylliboð til dömunnar, m.a. að hann ætli að redda flöskuborði á B5.


Polo bolur, Range Rover

Rifnar buxur, ég veit ég er ballin'

Ríf hjörtu, en hey samt all in

Fæ mikið hate babe ef ég er honest

Líka fake love, flöskuborðin

Ef þú vilt samband er ég horfinn

En ég segi þó satt, því ég vil þér vel

Hreinskilinn, enginn filter hér

Ég er kóngurinn

Flöskuborð á B5, ég skal hleypa þér inn

Viltu koma með mér heim

Ekki vera feimin, ég á fokking heiminn


Áberandi hér eru ensk orð sem hann slær um sig með: ballin‘, sem þýðir svalur, hey, all in, hate, babe, honest, fake love og fokking. Einnig er raddbeitingin öðruvísi og í samræmi við dansinn. Hann syngur ekki eins og hipsterinn heldur sækir innblástur í rappið. Hér birtist maður sem er fullur sjálfstrausts, hann segist rífa hjörtu og ætlar að láta sig hverfa ef hún „vill samband“. Unga konan hörfar frá, að sjálfsögðu, og kallar vonbiðilinn fuccboi.


Nei nei nei nei nei nei nei

Þú ert ekki týpan sem að ég fer með heim

Strákar eins og þú að reyna spila einhvern leik

Ég sagði nei nei nei nei nei nei nei

Þú ert ekki týpan sem að ég fer með heim

Fuccboi eins og þú, frekar enda ég ein


Samkvæmt Urban dictionary er fuccboi ómerkileg týpa með stórt egó. Vinsælasta skilgreiningin á Urban dictionary hljóðar svona: „A guy who will tell a girl anything to get them to hook up with them. A complete jerk who flirts with multiple girls at a time and makes them all believe they're individually special.“ Lagatextinn gefur til kynna að mikil notkun enskra orða heyri til staðalmyndarinnar.


Síðastur til að freista gæfunnar að þessu sinni er vatnsgreiddur ungur maður í svörtum jakka og skyrtu. Hann þráir ekkert heitar en að eiga örugga framtíð með söngkonunni.


Ljósa hárið þitt, bláu augun þín

Þú ert fullkomin, inn í heiminn minn

Skakka brosið þitt, það bræðir mig

Ég þrái þig

Þú veist hvað ég vil

Hvað þú vilt

Hverju ég hef leitað að

Gætum keypt okkur hús

Eignast börn

Fengið hund, skýrt hann Börk

Tekið lán fyrir bíl

Og stofnað sameiginlegt Facebook


Hún bregst fyrst vel við og tekur undir sönginn þannig að úr verður rómantískur dúett. Það renna þó á hana tvær grímur þegar hann fer að tala um húsnæðiskaup og sameiginlegan aðgang að Facebook.


Nei nei nei nei nei nei nei

Þú ert ekki týpan sem að ég fer með heim

Strákar eins og þú að reyna spila einhvern leik

Ég sagði nei nei nei nei nei nei nei

Þú ert ekki týpan sem að ég fer með heim

Gaurar eins og þú frekar enda ég ein.


Ólíkt texta rapparans eru engin ensk orð í texta síðasta vonbiðilsins, enda hefur þessi staðalmynd eflaust minni skírskotun til alþjóðlegrar unglingamenningar en hinar fyrri. Að taka saman húsnæðis- og bílalán tengist meira íslenskum veruleika en alþjóðlegri dægurmenningu unglinga. Í augum aðalhetjunnar er hér á ferðinni ósköp óspennandi strákur og hann notar engin sérstök orð sem einkenna ákveðnar manngerðir eða hópa.


Eins og sjá má spila allir þættir saman: tungumál, klæðaburður, lífsstíll, dans og söngur. Á Íslandi hafa ekki verið gerðar stórar rannsóknir á tengslum tungumáls og sjálfsmyndar ungs fólks en fróðlegt væri að skoða t.d. mun á samtalsstíl unglingahópa. Við efnisöflun innan rannsóknarverkefnisins Íslensks unglingamáls og Stafræns sambýlis íslensku og ensku var m.a. spurst fyrir um áhugamál þátttakenda og ef til vill mun greining efnis leiða eitthvað áhugavert í ljós hvað þetta varðar.


71 views0 comments

Comments


bottom of page