top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Sitthvað um eitthvað

Ef ég ætti að giska á hvaða orð kæmu oftast fyrir í samtölunum sem ég hef verið að skrá undanfarna mánuði myndi ég hiklaust segja , mhm, eitthvað, bara og svona. Oft koma þessi orð meira að segja fyrir saman og mynda keðjur, eins og eitthvað svona, bara svona eitthvað, eitthvað bara svona, og jafnvel eitthvað bara svona eitthvað.

Þessa dagana hef ég verið að velta fyrir mér þessari miklu notkun unglinga á eitthvað, því merkingin eða notkunin getur verið ýmis konar. Við skulum byrja á einföldu dæmi þar sem aðeins eitt tilvik kemur fyrir. Samtalið var tekið upp í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og þegar hér er komið við sögu er stjórnandi að spyrja nemendur hvað þeim finnst skemmtilegast að gera í skólanum.


Úma bendir á að kennararnir séu góðir og Aðalbjörg bætir því við að tímarnir séu líka skemmtilegir. Eftir endurgjöf frá stjórnanda (mhm) tekur Aðalbjörg aftur til orða og bætir við fleiri rökum: líka þá er maður ekki að læra eitthvað. Í þessu tilfelli leggur Aðalheiður skýra áherslu á sögnina læra en eitthvað er áherslulítið. Í þessu tilviki má segja að eitthvað sé notað sem orðræðuögn frekar en óákveðið fornafn í hlutverki umsagnar.

Tíð notkun orðsins og áhersluleysið bendir eindregið til þess að eitthvað sé og hafi sennilega lengi verið notað sem orðræðuögn. Þótt dreifing tilvika hafi ekki verið skoðuð kerfisbundin í íslensku talmáli þá tel ég frekar sennilegt að notkunin sé einnig tíðari hjá unglingum en eldra fólki. Þótt varasamt geti verið að bera saman orðræðuagnir í ólíkum málum finnst mér áhugavert í þessu tilfelli að bera eitthvað saman við like í amerísku unglingamáli. Ef ég ætti að þýða orð Aðalbjargar yfir á ensku myndi ég sennilega gera það svona: „and then you are not like studying“.

Til samanburðar langar mig að sýna annað stutt brot úr gagnagrunninum. Þetta samtal er einnig tekið upp í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Hér eru nemendur að tala um lækkun kosningaaldurs í sextán ár.

Ástrós hefur orðið og bendir á að sumir nemendur séu svo óþroskaðir að þeir kjósi bara einhverja vitleysu. Til þess að koma skilaboðum sínum á framfæri grípur hún til þess ráðs að setja upp örstuttan leikþátt og vitna í ímyndaða unglinga sem vita ekkert hvað þeir eru að gera. Tilvitnunin hefst t.d. á ha, sem gefur í skyn að þeir séu ekki alveg með á nótunum, og sögnin er í fyrstu persónu fleirtölu sem bendir til þess að unglingarnir taki ekki sjálfstæða ákvörðun. Einnig breytir hún röddinni til að herma eftir ráðvilltum unglingi (táknað með @). Beina tilvitnunin, eða leikþátturinn, er afmarkaður með eitthvað (lína 2), en slík notkun er mjög áberandi í gagnagrunninum, sér í lagi eitthvað bara, og ég mun fjalla um slíka notkun síðar.

Á meðan Ástrós setur leikþáttinn á svið grípur Jóel boltann og dregur um það bil sömu ályktun og Ástrós: já bara kjósa bara eitthvað bara random sjitt sko. Í þessu tilviki notar Jóel eitthvað sem umsögn (eða fornafn). Hér er hann einmitt að leggja áherslu á að unglingarnir kjósi bara út í loftið og að það sé hálfgerð tilviljun hver fái atkvæðin. Orðið er einnig borið fram með áherslu (táknað með undirstrikun).

Í þessum stuttu samtalsbrotum má sjá að notkunin á eitthvað í íslensku tali er að minnsta kosti þrenns konar. Miðað við allan þann fjölda tilvika sem er í gagnagrunni Íslensks unglingamáls er ég ekki í nokkrum vafa um að margt spennandi geti komið út úr nánari athugun á þessu áhugaverða orði.

208 views0 comments

Comments


bottom of page