top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

„Omg hann er gg næs“


Unglingamál verður sífellt alþjóðlegra með aukinni netnotkun og samskiptum þvert á tungumál og menningarheima. Unglingum virðist ganga betur að skilja hver annan en þeir sem eldri eru og þess vegna hefur unglingamáli jafnvel verið líkt við esperanto. Meðal þess sem birtist í netsamskiptum þvert á tungumál eru skammstafanir á enskum orðum og orðasamböndum (e. textism). Þær eru yfirleitt myndaðar með upphafsstöfum orða (t.d. idc > I don’t care) eða samdrætti bókstafa með því að fella hluta stafanna brott (t.d. nvm > nevermind). Notkun þeirra kemur m.a. til af tímapressu og takmörkunum á textalengd en er þó ekki síður þáttur í sjálfsmyndarsköpun unglinga sem virðast nota þær í meira mæli en fullorðnir og ekki síst til að aðgreina sig frá þeim (sjá t.d. Androutsopoulos 2011).

Skammstafanir koma víða fyrir í svörum unglinganna sem tóku þátt í slangurkönnuninni veturinn 2019‒2020. Eins og við var að búast eru skammstafanir á enskum orðum og orðasamböndum tíðar en athygli vekur hve oft íslensk orð eru skammstöfuð með samdrætti (t.d. örgl > örugglega og gg > geggjað). Taflan hér að neðan inniheldur nokkur dæmi um skammstafanir í svörum unglinganna.


Í lok könnunarinnar voru þátttakendur beðnir um að búa til dæmi um notkun slanguryrða að eigin vali. Skammstafanir koma þar víða fyrir og ljóst að unglingum er tamt að nota þær. Eftirfarandi eru nokkur þessara dæma:


1. ég er örgl að fara heim.

2. sup bro, ertu ferskur??

3. æj nvm skiptir ekki máli

4. brooo, wtf!?!?

5. omg hann er gg næs

6. Við erum búin að þekkjast frá æsku og erum bff

7. hún er fkn mökkuð

8. „Ég þarf að segja þér eitt“ „Ok, sendu mér PM


Nánar er fjallað um skammstafanir og ýmiss konar áhrif stafrænnar tækni á ritun slangurs meðal unglinga í nýrri grein okkar Helgu Hilmisdóttur í Ritinu 3/2021.


Heimildir:

Androutsopoulos, Jannis. 2011. „Language change and digital media: A review of conceptions and evidence“, Standard Languages and Language Standards in a Changing Europe, ritstj. Tore Kristiansen og Nikolas Coupland, Ósló: Novus, bls. 145–160.


Ragnheiður Jónsdóttir og Helga Hilmisdóttir. 2021. „brooo, wtf!?!?“ Um áhrif stafrænnar tækni á ritun slangurs meðal unglinga. Ritið 3/2021:93–115.

210 views0 comments

Comentários


bottom of page