top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Oh my god ég elska þetta!

Updated: Dec 15, 2021

Enska orðasambandið oh my god heyrist all oft í hversdagslegum samtölum á Íslandi, Skandinavíu og víðar um Evrópu. Eftirfarandi brot er úr umræðum sem teknar voru upp í grunnskólum á Norðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Í báðum tilvikum eru nemendur að ræða tónlist. Áður en brotið hefst hafa þeir fengið að heyra byrjunina á laginu Hoppípolla með Sigur Rós.

Í báðum dæmum er oh my god notað sem sterk viðbrögð við nýjum upplýsingum eða nýjum aðstæðum. Í dæmi (1) er það notað þegar mælandi uppgötvar að lag sem hún þekkir vel og hefur mikið dálæti á er komið í spilarann. Í dæmi (2) er orðasambandið hins vegar notað sem viðbragð við upplýsingum sem á einhvern hátt vekur sterkar tilfinningar, þ.e. það snertir Nönnu að Marta skuli tala um „glærusýningu” því hún hefur sjálf einmitt hugsað á sömu nótum.


En hvernig er orðasambandið oh my god notað, hverjir nota það og í hvaða samhengi kemur það fyrir? Og hvers konar hugrenningatengsl myndast þegar við heyrum einhvern hrópa upp yfir sig þessi orð sem fengin eru að láni úr ensku?


Á málþingi sem haldið var í Reykjavík í byrjun desember fjölluðu Elizabeth Peterson og Johanna Vaattovaara um notkun oh my god í finnsku nútímamáli. Í fyrirlestrinum veltu þær upp ýmsum spurningum sem einnig eru áhugaverðar í íslensku samhengi og verður efni fyrirlestursins rakið hér í stuttu máli.


Samkvæmt kanadísku málfræðingunum Tagliamonti og Jankowski (2019) er oh my god algengasta upphrópunin af því sem kallað hefur verið „g-orð“, þ.e. orð á borð við gosh, oh my goodness o.s.frv. Í ensku er orðasambandið einkum notað meðal yngri málhafa, kvenna og þeirra sem eru vel menntaðir. Rannsóknir sýna að tíðni oh my god tók stórt stökk upp á við í kringum aldamótin eins og sjá má á Mynd 1.


Mynd 1: Tíðni oh my god í kanadískum málheildum.


Í viðtölum við finnska unglinga komst Sofia Antturi að því að þeir tengja notkun upphrópunarinnar einkum við persónu úr amerísku sjónvarpsþáttunum Vinir, Janice. Vinsældir þáttanna gætu því útskýrt þetta gríðarlega stökk sem átti sér stað á þeim tíma sem þættirnir voru hvað vinsælastir (sjá Tagliamonte 2005 um notkun so í sömu sjónvarpsþáttum).
Í framhaldi af rannsóknum Tagliamonti og Jankowski veltu Peterson og Vaattovaara fyrir sér hvernig finnskumælandi Finnar upplifðu notkun oh my god í finnsku. Þær vildu kanna viðhorf málhafa og komast að því hvaða mynd þeir hefðu af fólki sem notaði oh my god í talmáli. Til að svara spurningunni gerðu þær tilraun þar sem 446 málhafar voru beðnir um að hlusta á hljóðbrot þar sem orðasambandið kemur fyrir. Í rannsókninni lögðu þátttakendur mat á þrjú raddsýni: fullorðna konu, unglingsstúlku og fullorðinn karlmann. Á upptökunum mátti heyra nákvæmlega sömu orð: oh my god, ei voi olla totta ‘oh my god, þetta getur ekki verið satt’.

Þátttakendur voru svo beðnir um að leggja mat á það hversu líklegt það væri að manneskjan í upptökunni myndi nota einmitt þetta orðalag og hversu ásættanlegt slíkt orðfæri væri. Þátttakendur voru svo beðnir um að gefa þeim stig á skala frá einum upp í sjö. Einnig fengu þátttakendur að koma með eigin athugasemdir í lokin.


Niðurstöður Peterson og Vaattovaara voru í stuttu máli þær að þátttakendur töldu að fullorðnar konur (2,19) væru líklegastar til að nota oh my god en maðurinn ólíklegastur (3,58). Sömu sögu var svo að segja þegar þátttakendur lögðu mat á það hversu ásættanleg notkun orðasambandsins væri í talmáli. Þátttakendur voru minnst hrifnir af notkun fullorðinna karlmanna (5,8) en fullorðnar konur (6,06) fengu flest stig.


Þegar þátttakendum bauðst að skrifa athugasemdir með eigin orðum kom svo margt áhugavert í ljós. Það sem einkum kom Peterson og Vaattovaara á óvart var kynjamunurinn. Svörin settu þær fram á eftirfarandi mynd (ensk þýðing fyrirlesara).


Mynd 2: Athugasemdir málhafa við hljóðdæmi sem notuð voru í rannsókn Peterson og Vaattovaara (2021).


Eins og sjá má á Mynd 2 er sláandi munur á lýsingum þátttakenda á raddsýnunum. Konunni var lýst með orðum á borð við „pirrandi“, „hallærisleg“, „ómenntuð“, „menntuð“, „ung“ og „óþroskuð“. Unglingsstúlkunni var hins vegar lýst með orðum á borð við „dramadrottning“, „vitlaus“, „tilfinningarík“, „venjuleg“ og „sannfærandi“. Manninum var að lokum lýst með orðum á borð við „fyndinn“, „undarlegur“, „menn segja ekki svona“, „aldrei heyrt þetta“, „ekki karlmannlegt“ og „ómögulegt“.


En hvernig ætli viðhorfið sé á Íslandi? Finnst Íslendingum óviðeigandi að karlmenn noti orðasambandið oh my god? Og líta þeir svo á að konur sem nota orðasambandið séu óþroskaðar og vitlausar? Þetta hefur ekki verið rannsakað í íslensku samhengi og því ómögulegt að segja þótt hver og einn geti velt því fyrir sér hvort hann sé haldinn einhverjum fordómum er varða notkun oh my god. Hins vegar er áhugavert að skoða notkun orðasambandsins í gagnagrunni rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál. Þótt samtölin sem eru í gagnagrunninum séu stýrð af umræðustjóra og því fremur formleg má finna alls 17 dæmi um oh my god í gagnagrunninum. Tilvikin koma öll fram í samtölum sem tekin voru upp á höfuðborgarsvæðinu (11 dæmi) og á Norðurlandi (6 dæmi), flest í grunnskóla (15 dæmi). Öll dæmin koma fyrir í máli stúlkna.


Heimildir

Peterson, Elizabeth og Johanna Vaattovaara. 2021. „Teasing out the social distinction of the borrowing oh my god in Finnish“. Fyrirlestur fluttur á Swisca 7, Reykjavík 3. desember 2021.


Tagliamonte, Sally. 2005. „So weird; so cool; so innovative: The use of the intensifiers in the television series Friends“. American Speech 80(3): 280–300.


Tagliamonte, Sally og Bridget Jankowski. 2019. „Golly, Gosh, and Oh My God! What North American Dialects can Tell Us about Swear Words“. American Speech 94(2). 195–222.


Mynd á forsíðu: Thomas Park, Unsplash.


326 views0 comments

Comentarios


bottom of page