top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Mér líður eins og þetta sé góð hugmynd!

Updated: Apr 30, 2020

Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók merkir ópersónuleg notkun sagnarinnar líða að ‘vera við ákveðna líðan eða heilsu, hafa það gott eða slæmt’. Eftirfarandi dæmi eru tekin beint úr orðabókinni:

mér líður ekki vel í höfðinu

hvernig líður ykkur í nýja húsinu?

hún hafði miklar áhyggjur og leið illa

sjúklingnum líður betur í dag

Í gagnagrunni rannsóknarverkefnisins Íslensks unglingamáls má þó finna dæmi um annars konar merkingu, þ.e. þegar orðasambandið mér líður er notað í merkingunni ‘ég held’ eða ‘ég hef á tilfinningunni’. Til að varpa ljósi á þessa nýju notkun ætla ég að rýna í brot úr tveimur hópumræðum sem hljóðritaðar voru í skólastofum veturinn 2018–2019.


Í fyrra samtalsbrotinu eru grunnskólanemar á höfuðborgarsvæðinu að ræða lag Sigur Rósar Hoppaípolla.


Þegar brotið hefst eru þátttakendur að ræða hverjir séu líklegastir til að setja lagið í spilarann sinn. Ingileif ríður á vaðið og segir frá því að hún sjái t.d. fyrir sér fimmtuga menn sem hlusti á lagið á meðan þeir fari í slakandi bað (lína 1–2, 5,7 og 9). Gunnþóra er þó á annarri skoðun: henni „líður“ eins og þeir sem hlusti á þessa tónlist séu frá tuttugu og fimm ára aldri og upp úr. Hér er ópersónulega sögnin líða augljóslega notuð í annarri merkingu en þeirri sem lýst er í Íslenskri nútímamálsorðabók. Hér er mælandi ekki að segja frá eigin líðan eða heilsu, heldur er hún að reyna að búa sér til mynd af hinum dæmigerða aðdáenda Sigur Rósar. Hún telur að fólk sem er tuttugu og fimm ára og eldra gæti hugsanlega haft gaman af þessu lagi. Með því að nota orðasambandið mér líður sýnir hún að þetta sé hennar tilfinning frekar en að hún sé viss í sinni sök.

Sams konar merkingu má einnig sjá í eftirfarandi samtali sem tekið var upp í framhaldsskóla á Vestfjörðum. Hér er einn þátttakandi að færa rök fyrir því að ekki eigi að lækka kosningaaldurinn á Íslandi.


Unnur bendir á að fyrst þurfi að fræða ungt fólk um stjórnmál og þá ábyrgð sem í því felst að fá að kjósa (lína 1–3, 5, 7). Hún skýrir svo fyrir stjórnanda að henni „líði“ eins og það myndi ekki fara vel (lína 12–13) ef nemendur fengu kosningarétt án þess að þeir fengju góðan undirbúning. Eins og í dæmi (1) þá er Unnur ekki að vísa í eigin líðan eða heilsu, eins og lýst er í Íslenskri nútímamálsorðabók, heldur er hún að lýsa tilfinningu sinni fyrir því hvernig málin myndu fara ef nemendur færu óundirbúnir á kjörstað.

Eins og þessi tvö dæmi sýna virðist sögnin líða með þágufallsfrumlagi vera að þróa með sér nýja merkingu. Hér má benda á að ekki er um stök tilvik að ræða heldur má sjá svipaða þróun bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum. Í framtíðinni verður athyglisvert að skoða hvort þessi merking muni færast í aukana eða hvort hún muni hverfa.

HEIMILDIR

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. http://islenskordabok.is/ (mars 2020).

117 views0 comments
bottom of page