Samkomutakmarkanir á tímum COVID komu hart niður á samfélaginu, ekki síst á ungmennum sem misstu úr skóla svo vikum skipti. Heimildarmaður minn, hinn sextán ára gamli Bogi, lenti í því eins og svo margir aðrir að ljúka sínu fyrsta ári í framhaldsskóla í fjarnámi.
Í gagnagrunni rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál er að finna upptökur af samtölum Boga þegar hann er að spila tölvuleiki með vinum sínum. Í tveimur upptökum á hann að vera í kennslustund sem fer fram í gegnum fjarfundabúnað. Að þessu sinni ætla ég að skoða nánar samtöl Boga við vini sína þegar hann á að vera í dönskutíma. Dönskunáminu er þó lítið sinnt í þessu samtali að öðru leyti en því að strákarnir svara þegar kennarinn athugar mætingu með nafnakalli í upphafi tímans.
Í stað dönskunámsins er ýmislegt annað sem kallar á athygli drengjanna, fyrst og fremst tölvuleikurinn FIFA sem drengirnir eru að spila allan tímann á meðan upptökum stendur. Bogi og Valdi fylgjast einnig vel með Instagram og tilkynna hvor öðrum um hvert nýtt „seen“, „læk“ eða „followers“ sem birtast í símanum. Kári bekkjarbróðir þeirra kemur einnig inn í samtalið en lætur sig svo hverfa eftir nokkrar mínútur. Sömu sögu er að segja um Svenna sem býr í öðru bæjarfélagi og á að vera í annarri kennslustund í öðrum skóla. Einnig heyrist í mömmu Boga í samtalinu, í annað skiptið til að láta hann vita að hún sé á leið út úr húsi og í hitt skiptið til að biðja Boga um að fara fyrir sig út í búð. Inn á milli ræða strákarnir svo tónlist og velja lög af spilara. Það er því óhætt að segja að margt sé í gangi á sama tíma hjá Boga og að hann þurfi að halda mörgum boltum á lofti samtímis.
Eftirfarandi samtalsbrot sýnir einu samskipti Boga við kennarann í þessari kennslustund, þ.e. þegar hann svarar nafnakallinu (á meðan hann spilar tölvuleikinn). Feitletruðu loturnar sýna samskipti sem fara um hljóðrás kennsluumhverfisins en það sem er ekki feitletrað heyrist aðeins hjá Boga og Valda.
Þegar búið er að lesa upp nafn Boga slekkur hann á hljóðnemanum sínum í kennsluumhverfinu en heldur áfram að tala við Valda (sbr. athugasemd um sexy voice). Bogi fer umsvifalaust að hugsa um að koma sér burt úr kennslutímanum. Hér notar hann sögnina að leava sem margir tengja fyrst og fremst við tölvuleikjaheiminn en er hér einnig notuð yfir það að slökkva á fjarfundarbúnaði. Eftir ábendingu Valda um að bíða (lína 14) hlusta þó báðir drengirnir á fyrirmæli kennarans áður en þeir slökkva á búnaðinum og snúa sér aftur að tölvuleiknum og Instagram.
Upptökurnar veita áhugaverða innsýn í upplifun Boga og Valda af fjarkennslu og varpa ljósi á viðhorf þeirra til námsins. Í dæmi (2) spjalla strákarnir um hvaða aðferðir þeir noti til að komast hjá því að svara spurningum í kennslustund.
Af dæmi (2) má sjá að fyrirkomulagið sem notað var í þessum dönskuáfanga hentar fyrst og fremst nemendum sem sækjast eftir því að taka virkan þátt í kennslunni. Eins og Bogi og Valdi benda á eru alltaf einhverjir sem vilja svara og því þurfa þeir sjálfir sjaldan að taka virkan þátt í samtölum við kennarann. Ég vil þó taka það strax fram að tilgangur þessarar umfjöllunar er ekki að gagnrýna kennara og skóla fyrir fyrirkomulag fjarkennslu á tímum Covid, enda virkar fjarkennsla mjög vel fyrir marga nemendur. Það sem fyrst og fremst vakti áhuga minn í þessu samtali var hversu mikið er í gangi hjá Boga og vinum hans á meðan kennslustund stendur yfir og hvað þeir geta í rauninni sinnt mörgum verkefnum í einu þó að lítið fari fyrir dönskunáminu að þessu sinni.
Comments