top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

„Hversu mikill king“Í framhaldi af síðustu færslu um kveðjur langar mig að fjalla svolítið meira um slangurorða-könnunina sem þar var minnst á. Hún var lögð rafrænt fyrir grunn- og framhaldsskóla-nemendur skólaárið 2019–2020 og þar voru þátttakendur beðnir um að skrifa niður slangur-yrði sem þeir eða jafnaldrar þeirra gætu notað yfir valin hugtök úr almennu máli. Sams konar könnun var gerð haustið 2000 og því er mögulegt að bera niðurstöðurnar saman til að kanna hvers konar breytingar hafa átt sér stað á slangurorðaforða unglinga síðan þá.


Eitt af því sem vekur athygli er hversu áberandi enska er í svörunum. Svo virðist sem um það bil helmingurinn af svörum vefkönnunarinnar séu nýleg aðkomuorð úr ensku og hefur þetta hlutfall tvöfaldast milli kannana (sbr. MA-ritgerð Ragnheiðar Jónsdóttur 2021). Undir liðnum SKEMMTILEG(UR)/FYNDIN(N) bárust til dæmis orð eins og fun, geggjuð, king og hellaður, en í töflunni hér að neðan má sjá hvaða ensku orð komu oftast fyrir undir þessum lið í hvorri könnun fyrir sig.


Þarna sést að orðin fun/funny í ýmsum útgáfum eru algengust bæði árin en nice kemst einnig inn á lista. Vinsældir slanguryrðisins cool hafa dalað en king kemur nýtt inn. king er nefnt 46 sinnum í vefkönnuninni árið 2020 undir liðnum SKEMMTILEG(UR)/FYNDIN(N) en kóngur er nefnt 22 sinnum. Hvorugt kemur fyrir í svörunum árið 2000 sem gefur til kynna að unglingar séu nýlega farnir að nota orðin í þessari merkingu.


Samkvæmt veforðabókinni Urban Dictionary sem unnin er með hópvirkjun (e. crowd-sourcing) felur orðið king í sér virðingu og umhyggju, það er einkum notað meðal ungra karlmanna og er sterkara en bro. Þar segir einnig að líklega hafi orðið komist í notkun í þessari merkingu vegna þess að ungar konur hafi tekið að nota orðið queen hver um aðra. Eflaust eiga áhrifavaldar og samfélagsmiðlar sinn þátt í því. Til að mynda kallar poppstjarnan Beyoncé sig gjarnan Queen Bey og hvetur ungar konur til að standa saman og valdefla hver aðra (sjá t.d. Trier-Bieniek 2016). Svo virðist þó sem king sé mun vinsælla en queen meðal íslenskra unglinga því queen kom aðeins átta sinnum fyrir undir liðnum SKEMMTILEG(UR)/FYNDIN(N), drottning aldrei en drolla tvisvar.


Undir lok vefkönnunarinnar voru þátttakendur beðnir um að velja þrjú af þeim slanguryrðum sem þeir skrifuðu og búa til dæmi til þess að sýna hvernig mætti nota þau í setningu. Fimmtán þátttakendur bjuggu til dæmi um orðið king:


1) blessaður, king! eigum við ekki að fara að vera blekuð eða eh

2) Sjælir kingsi útí smellí eða?

3) Sælir king. (2)

4) sælir king, hvað segir kallinn

5) þetta var king shit.

6) arnar er eh mesti kingsi sem ég veit um.

7) hversu mikill king

8) King - einhver sem er að standa sig vel eða er töff (A: ég fékk 9,5 á prófinu! B: King)

9) sjáumst king

10) Blessaður kingser sérðu þennan nerd þarna

11) Neldu þér heim king

12) Þessi gæi er svo mikill king,

13) nei, sælir kings! hvað segir kjéllinn??

14) hann er svo mikill KING = hann er svo skemmtilegur og fyndinn


Tveir þátttakendur bjuggu hins vegar til dæmi um íslenska orðið kóngur:


1) Þú ert mesti kóngur sem ég þekki

2) Elska Gunnar, hann er algjör Kóngur


Samkvæmt vefsíðunni Know Your Meme, sem sér um að skrásetja og skýra fyrirbæri sem kallast á ensku meme, varð king vinsælt sem slanguryrði árið 2019 fyrir tilstilli smáforrita eins og iFunny, Instagram og Reddit. Enn hefur ekkert íslenskt orð yfir meme fest sig í sessi en fram hafa komið tillögur eins og jarm, fluga og farandbrandari (Ágústa Þorbergsdóttir 2020).
Heimildir:


Ágústa Þorbergsdóttir. 2020. Hvað er „meme“ og er til íslenskt orð yfir það? Vísindavefurinn. https://www.visindavefur.is/svar.php?id=78781.


Ragnheiður Jónsdóttir. 2021. „Fáðu þér eina smellý og chillaðu broski“ Um ensk orð í slangurorðaforða unglinga á Íslandi. MA-ritgerð. Háskóli Íslands.


Trier-Bieniek, Adrienne. 2016. The Beyonce Effect: Essays on Sexuality, Race and Feminism. McFarland & Company, Inc. Publishers, Jefferson.163 views0 comments

Comments


bottom of page