top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

Hvað segir þú við þann sem þú ert reið(ur) við?

Eins og fram hefur komið hér í fyrri færslum stendur til að halda norræna blótsyrðaráðstefnu í byrjun desember (sjá hér). Til að varpa ljósi á hvaða blótsyrði eru í notkun meðal unglinga hér á landi er kjörið að rýna í gögnin sem þegar hefur verið safnað innan rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál (sjá m.a. umfjöllun Helgu Hilmisdóttur um blótsyrði í tölvuleik unglingsstráka hér). Í könnun á slangri sem lögð var fyrir nemendur í framhaldsskóla og tíunda bekk grunnskóla veturinn 2019‒2020 voru þátttakendur meðal annars beðnir um að skrifa hvað þeir segðu við þann sem þeir væru reiðir við. Spurningin er vissulega mjög opin en líkt og mig grunaði þá inniheldur stór hluti svaranna blótsyrði.


Svörun við þessum lið könnunarinnar var mikil því samtals bárust 940 svör frá rúmlega þúsund þátttakendum. Af þeim innihalda 348 blótsyrðið fuck/fokk í ýmsum myndum, eða um 37%. Íslenskur ritháttur orðsins er mun algengari en sá enski, en hlutfallið er 86/14%, og algengast er orðasambandið fokkaðu þér (N=195). Þeim svörum sem ekki innihalda orðið fuck/fokk hef ég síðan skipt í sjö mismunandi flokka (sjá skífurit).




Í fyrsta flokkinn falla orð og orðasambönd sem fela í sér sefun eins og chillaðu, róaðu þig og slakaðu á (N=38), í annan flokkinn falla beiðnir og skipanir eins og hættu, þegiðu og haltu kjafti (N=125), en í þann þriðja alvarlegri hótanir og skipanir, t.d. farðu burt, dreptu þig og drullaðu þér. Fjórði flokkurinn inniheldur orð og orðasambönd sem fela í sér uppnefni og önnur illyrði, t.d. þú ert ömurleg, auli og tussan þín (N=88). Í fimmta flokkinn falla lýsingar á eigin tilfinningum, t.d. ég er pirruð og ég hata þig (N=47), en í sjötta flokkinn spurningar eins og hvað er að þér? og why u so mad? (N=50). Í síðasta flokkinn falla svo önnur orð, orðasambönd og táknmerki. Algengast þar er svarið ekkert (N=42) eða útskýringar þátttakenda sem telja yfirleitt best að ræða málin við viðkomandi, en þarna eru einnig upphrópanir eins og ughhh og oj, sérnöfn, kveðjur og broskarlar (lyndistákn) með fýlusvip.





63 views0 comments
bottom of page