top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Hnykkjarar, framtíðardraumar og tilvitnanir í YouTube

Updated: Apr 8, 2021

Í eftirfarandi samtalsbroti er stjórnandi að spjalla við nemendur í áttunda bekk á höfuðborgarsvæðinu um hvað þeir sjái fyrir sér að vinna við að námi loku. Við skulum gefa Kristófer orðið:

Hér segir Kristófer frá því að hann hafi áður látið sig dreyma um atvinnumennsku í handbolta en að myndband sem hann sá um störf hnykkjara hafi breytt afstöðu hans. Það sem mér finnst sérstaklega áhugavert í þessu broti er notkun Kristófers á enska orðinu chiropractors. Orðið er borið fram með áberandi amerískum hreim, m.a. með því að leggja áherslu á seinna atkvæði. Einnig er fleirtölumyndin tekin beint úr ensku. Hér er því greinilegt að mælandi er ekki að reyna að aðlaga orðið að íslensku heldur skiptir hann hreinlega yfir í það sem hann og hinir þátttakendurnir upplifa sem ameríska ensku. Til samanburðar má nefna áhersluorðið fokking sem hefur verið notað lengi í talmáli og fellur vel að íslensku hljóðkerfi.

Hér væri mikil einföldun að segja að Kristófer noti orðið chiropractors af því að hann muni ekki eða hafi hreinlega aldrei lært íslenska orðið (þó að það geti líka verið tilfellið). Ef skortur á orði væri eina ástæðan fyrir því að hann grípi til enskunnar þætti mér ólíklegt að hann legði svona mikla áherslu á setja á svið ákveðinn framburð. Ég tel því líklegra að enskunotkun Kristófers megi rekja til þess að hann er að vitna beint í umrætt myndband eða a.m.k að reyna að vekja ákveðin hugrenningatengsl hjá hinum þátttakendunum (sbr. umfjöllun Gumperz 1982 um contextualization cues). Starf hnykkjarans er kynnt sem hluti af amerískri menningu sem Kristófer hefur kynnst í gegnum kynningarmyndbönd á YouTube. Með því að nota enska orðið sem eins konar tilvitnun fer heldur ekkert á milli mála að myndbandið var ekki tekið upp á íslenskri hnykkjarastofu.

Ein af þeim rannsóknarspurningum sem verkefninu Íslenskt unglingamál er ætlað að svara snýr einmitt að notkun ungs fólks á aðkomuorðum úr ensku. Þegar skráningu efnisins er lokið verður áhugavert að rýna betur í tilvik eins og þessi.

Heimildir

Gumperz, John J. 1982. Discourse Strategies. Studies in Interactional Sociolinguistics 1. Cambridge University Press.

71 views0 comments

Comments


bottom of page