top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Hey gaur, tékkaðu á því sem ég var að skrifa!

Updated: Apr 15, 2021


Í síðustu viku lauk ég við að skrá fjórða skjalið með upptökum tveggja drengja sem eru að spila tölvuleikinn Grand Theft Auto. Samtals er því búið að skrá 3 klst. og 20 mín. af tölvuleikjum unglinga. Samtalið er mjög áhugavert og gaman verður að vinna efni upp úr því og skoða bæði orðaforða, orðanotkun og ýmis munstur í samtalinu. Eitt af því sem ég rak fyrst augun í, og kemur þeim sem umgangast unglinga svo sem ekkert á óvart, er hversu oft orðið gaur kemur fyrir í samtölunum. Samtals kemur það fyrir 229 sinnum. Til samanburðar kemur sögnin vera fyrir 1076 sinnum og samtengingin og 216 sinnum.

Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er gaur notað sem lastyrði um mann:. ‚langur sláni, óheflaður maður, dóni, óþokki‘. Undanfarna áratugi hefur orðið þó glatað eitthvað af þessari neikvæðu merkingu. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið talið óformlegt og notað í merkingunni ‚náungi, maður‘. Þegar tilvikin sem hér um ræðir eru skoðuð nánar kemur í ljós að aðeins í 27 tilfellum er orðið notað í merkingunni ‚náungi, maður, strákur‘. Í þessum tilvikum kemur orðið oftast fyrir í nefnifalli eintölu án greinis (gaur 19) en einnig eru dæmi um tilvik með ákveðnum greini (gaurinn 3, gaurinum 1) og fleirtölu (gaurar 3, gaura 3).

Þeim 229 tilvikum sem eftir standa er ef till vill best lýst sem einskonar ávarpi. Orðið hefur ákveðinn tilgang á málnotkunarlega sviðinu (e. pragmatic function). Til að lýsa notkuninni þarf þó að kafa dýpra í samskiptin en ég hafði ætlað mér hér í þessari stuttu færslu. Til að einfalda hlutina má þó segja að orðið tákni einskonar ósk um athygli. Mælandinn biður viðmælanda að hlusta. Á vissan hátt má því bera notkun orðsins saman við það þegar við ávörpum einhvern með nafni. Nöfn og önnur ávörp koma oftast fyrir í upphafi lota og það sama á við um gaur.

Þessi nýja notkun á orðinu gaur er dæmi um það sem ég hef í fyrri færslu kallað málnotkunarlegar tökur (e. pragmatic borrowing). Að þessu sinni er ekki verið að taka enskt orð beint og nota í íslensku samhengi (eins og t.d. yess, plís og what) heldur er hér um tökuþýðingu að ræða. Í bandarísku slangri hefur lengi tíðkast að nota orðið dude sem einskonar ávarp og lengi vel áttu íslenskur þýðendur í erfiðleikum með að finna gott orð sem hafði sömu virkni. Þegar gamanmyndin Dude, where is my car var sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi var t.d. ekki augljóst hvernig hægt væri að þýða dude á íslensku. Opinbera heiti myndarinnar var því einfaldlega Hvar er bíllinn minn?, en í óformlegu samhengi var stundum talað um Hey, hvar er bíllinn minn? eða jafnvel Lúði, hvar er bíllinn minn? (sjá mynd). Þar sem orðið gaur hefur á undanförnum árum fengið nýtt hlutverk held ég að þýðendur í dag ættu ekki í nokkrum vandræðum með að breyta titlinum í Gaur, hvar er bíllinn minn?

En hvernig má útskýra þennan mikla fjölda tilvika á ekki lengri tíma en 3 klst. og 20 mínútum? Ég held að skýringin sé fyrst og fremst sú að gaur sem ávarp er orðið einskonar einkennisorð fyrir ákveðna hópa í samfélaginu, sér í lagi ungra drengja. Þetta segi ég þó án þess að hafa skoðað þetta sérstaklega. Ef til vill má líka skýra fjölda tilvika með því að tölvusamskipti eru á margan hátt snúin. Drengirnir tveir sem taka þátt í samtalinu sjá ekki hvor annan. Þeir sitja báðir fyrir framan skjá og hljóðgæðin eru misgóð. Einhver töf er á hljóðum á milli drengjanna og pásur á milli lota eru lengri en í hversdagslegum samtölum þar viðmælendur geta notað augnaráð og líkamstjáningu til að sjá fyrir lotuskipti. Ef til vill er því að einhverju leyti hægt að rekja þessa miklu notkun orðsins í þessum upptökum til ytri aðstæðna.

Að lokum birti ég hér stuttan lista með dæmum úr tölvuleikjasamtölunum.


Comments


bottom of page