top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Fylgjast íslenskir unglingar með fréttum?

Updated: Nov 17, 2021

Eitt af því sem við spurðum um í skólaviðtölum rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál var hvort og hvernig nemendur fylgdust með því sem væri að gerast í þjóðfélaginu og úti í heimi. Í viðtölunum var talað við 120 nemendur í 16 grunn- og framhaldsskólum en ekki er ætlunin að gera tæmandi úttekt á svörum nemenda í þessum stutta pistli. Mig langar hins vegar í örfáum orðum að segja frá því sem stóð upp úr í mínum huga.


Í fyrsta lagi var áberandi að stór hluti nemenda sækir aðallega fréttir í gegnum samfélagsmiðla, sem kemur svo sem ekkert á óvart. Í dæmi (1) segir Ragnheiður, sem er framhaldsskólanemi á Vestfjörðum, frá því hvernig hún nálgast fréttir með því að smella á tengla á Facebook (lína 13). Ragnheiður segist hins vegar ekki vera „að chilla heima og ákveða að fara á Vísi eða eitthvað,“ þ.e. hún fer ekki beint inn á íslenska netmiðla (lína 20).

Í umræðunum kemur víða fram að birting og dreifing blaðagreina á samfélagsmiðlum ýti undir fréttalestur unglinga. Í dæmi (2) lýsa nemendur því hvaða áhrif það hefur á þá þegar netmiðlar deila fréttum á Facebook. Eins og Þórunn bendir á þá er hún alltaf með þetta fyrir framan sig (lína 10). Einnig bendir Brynjar á að stundum séu allir vinir hans að deila sömu fréttinni (línur 14–16). Þá verður sú frétt aðalumræðuefnið þann daginn (lína 20). Hér kemur skýrt fram hversu mikil áhrif netmiðlar geta haft á fréttaneyslu unga fólksins ef greinarnar ná að vekja athygli og komast á flug. Fréttir á samfélagsmiðlum eru meira áberandi en aðrar fréttir (lína 25).Eins og oft hefur verið bent á að undanförnu sækja unglingar þó ekki aðeins í íslenskt efni. Netið býður upp á nær ótakmarkað efni á fjölmörgum tungumálum. Í viðtölunum kemur fram að nemendur sækja ekki síst í erlenda fréttamiðla, hvort sem það er til að fylgjast með stjórnmálum, náttúruhamförum, íþróttum eða slúðri af fræga fólkinu.


Í dæmi (3) segir Guðfinna frá því hvernig hún notar Instagram og Snapchat til að fylgjast með því sem er að gerast í heiminum (línur 3 og 7). Síðurnar sem hún notar til að fylgjast með fréttum eru á ensku. Hún tekur nýlega frétt um hurricane sem dæmi. Í þessu tilviki er áhugavert að sjá hvaða áhrif það hefur á orðanotkun Guðfinnu að hún skuli (að eigin sögn) eingöngu lesa fréttir á ensku. Enska orðið hurricane virðist nærtækara fyrir Guðfinnu en íslenska orðið fellibylur. Einnig má benda á að hún ber fram orðið með mjög áberandi amerískum hreim.En þótt samfélagsmiðlar séu áberandi í svörum viðmælenda nefna einnig margir aðrar og hefðbundnari leiðir til að fylgjast með fréttum. Aðeins einn nemandi talaði um að hann renndi yfir helstu fyrirsagnir Fréttablaðsins sem kæmi inn um lúguna á hverjum morgni. Fjölmargir nefndu hins vegar að þeir fylgdust með fréttum í útvarpi og sjónvarpi. Einkennandi fyrir þennan hóp er að fréttaneyslan tengist fyrst og fremst hefðum í fjölskyldunni. Í dæmi (4) segir Maríanna frá því að hún horfi alltaf á sjónvarpsfréttir með foreldrum sínum (línur 3 og 5).

Í dæmi (5) lýsir svo Baldur því hvernig hann dregst að sjónvarpsfréttum bara vegna þess að þær eru í gangi á heimilinu. Hér kemur glögglega í ljós hversu mikil áhrif fréttaneysla foreldra hefur á unga fólkið.
Að lokum er tekið dæmi af nokkrum grunnskólanemendum sem höfðu lítinn áhuga á fréttum. Í dæmi (6) segir Guðrún frá því að hún sé lítið spennt fyrir fréttum nema eitthvað sérstakt sé um að vera. Hún bendir þó á að hún fái að vita hvað sé að gerast í gegnum ömmu sína (lína 8).


Til að draga niðurstöðurnar saman má segja að frásagnir nemenda bendi til þess að fréttaneysla unglinga sé mjög misjöfn og að þeir sæki upplýsingar eftir ýmsum leiðum. Ekki er hægt að segja að unglingar séu alveg hættir að fylgjast með hefðbundnum fréttamiðlum því stór hluti viðmælenda sagðist fylgjast með sjónvarps- og útvarpsfréttum upp að ákveðnu marki. Oft virðast fréttirnar rata til þeirra í gegnum samfélagsmiðla en einnig virtist fréttaneysla foreldra hafa mikil áhrif á unglingana, sér í lagi hvað varðar áhorf á kvöldfréttir í sjónvarpi. Með tilkomu snjalltækja eiga allir þess kost að sækja sér efni á hvaða tungumáli sem er og því er mikilvægt að íslenskt fréttaefni nái ekki síst til unga fólksins.

71 views0 comments

Comments


bottom of page