Eitt af því sem spilarar í tölvuleiknum Grand Theft Auto gera er að skapa sér ímynd með því að klæða „kallinn sinn“ í flott föt og velja á hann hatta, hár, sólgleraugu og skartgripi. Í eftirfarandi samtalsbroti eru vinirnir Bogi og Svenni að ganga í átt að verslun sem selur tískufatnað og fylgihluti. Bogi ætlar að „dressa sig upp“ og kaupa m.a. turtleneck ‚rúllukragabol‘.

Drengirnir nota óvenju mikið af enskum orðum þegar þeir tala um búðina og á meðan þeir velja sér föt. Áður en þeir fara inn bendir t.d. Bogi á að þessi shop er expensive sko (lína 5). Hann leiðréttir sig svo í næstu línu og notar orðið búð (lína 6). Svenni tekur undir með Boga og tekur fram að hann hafi verið þarna daginn áður og viti því fullvel að búðin er dýr.
Í brotinu sjáum við að bæði Bogi og Svenni nota ensk orð yfir þær vörur sem þeir hafa eða ætla að kaupa í versluninni. Svenni talar um chain og Bogi segir frá því að hann sé að leita sér að turtleneck (lína 11 og 20). Svenni notar svo sjálfur orðið turtleneck (lína 17).
Notkun drengjanna á ensku orðunum turtleneck og chain skýrist þegar drengirnir fara að leita að vörunum í felliglugganum þar sem vöruúrvalið birtist og viðskiptin fara fram (sjá Mynd 1). Orðin eru tekin beint upp úr textanum sem birtist á skjánum. Orð eins og buxur og gleraugu eru þó sennilega drengjunum of töm til að þeir skipti þeim út fyrir ensku orðin.

Mynd 1: Bogi finnur turtleneck og velur réttan lit.
Þegar Bogi er orðinn nokkuð sáttur við útlitið, kominn í gráan rúllukragabol og fínar buxur, biður hann Svenna að koma með sér á stað þar sem hann getur fengið nýja hárgreiðslu (lína 1).

Á meðan Bogi velur sér föt mátar Svenni nýja eyrnalokka. Áður en hann samþykkir að yfirgefa búðina biður hann félaga sinn um að kíkja á nýju lokkana (lína 3). Bogi stillir sér upp við hlið Svenna og skoðar (lína 4). Hann gefur til kynna hrifningu sína með því að gefa frá sér langt ú-hljóð og segir svo að þetta séu „diamonds“ (lína 5). Eins og í brotinu hér að framan er orðið diamonds sennilega tekið beint af skjánum.
Hér er þó líka annað sem gerist. Eins og fram kemur á fleiri stöðum í samtali drengjanna eru þeir báðir aðdáendur bandaríska rapparans Lil Pump. Þegar Bogi notar orðið diamonds virðist það vekja ákveðin hugrenningatengsl hjá Svenna. Eftir að hafa staðfest að um pure ice eða ‚ekta demanta‘ sé að ræða (lína 7) segist hann vera iced out sko, sem er skírskotun til lag Lil Pump „Iced out“.
Tilvitnun Svenna í Lil Pump er gott dæmi um það hvernig viðmælendur nýta sér þekktar laglínur, auglýsingatexta eða fræg tilsvör úr alþjóðlegri dægurlagamenningu í samtölum við vini og jafnaldra. Nú á dögum þegar vinsæl dægurmenning fer að stórum hluta til fram á ensku er ekki skrýtið þótt tilvitnanirnar séu einmitt oft á því tungumáli.
Lagið Iced Out má hlusta á á Spotify og Youtube en hér að lokum má sjá lagatextann.

Commentaires