top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

Chillax gaur

Fyrir marga unglinga eru jólin kærkominn tími til þess að tjilla ʻslappa afʼ og njóta þess að vera í fríi. Af niðurstöðum slangurkönnunarinnar 2019−2020 að dæma þá virðist afslöppun unglingum ofarlega í huga. Þar voru þátttakendur beðnir um að velja þrjú af þeim slanguryrðum sem þeir skrifuðu í könnuninni og sýna hvernig mætti nota þau í setningu. Aðkomuorðið chilla (e. chill) var vinsælast en 10% allra sem tóku þátt völdu að búa til dæmi um það.


1. gaur koddu i pc á eftir eða förum að chilla eða eih

2. chillax gaur

3. já ég er bara að chilla ég ligg hérna á smettinu

4. kemuru að chilla eftir skóla?:)

5. síðasta vika var mjög chill (þ.e.a.s. hún var mjög róleg).

6. blellaður felli, er karlinn búinn að hella sér í chillaða smellí?

7. hey girl (notað sama hvaða kyn manneskjan er) það er smá chill heima hjá mér í kvöld, engir snákar samt

8. ég er bara í chillinu

9. jó, sjomli, ertu í góðu tjilli?


Enska sögnin chill tekur yfirleitt nafnháttarendinguna ʻ-aʼ líkt og almennt gildir um aðkomusagnir í íslensku, þ.e. chilla(-ði), og beygist þannig eins og veikar sagnir. Í dæmi 2 má hins vegar sjá blöndu af ensku sögnunum chill og relax > chillax. Ennfremur er athyglisvert að sjá hvernig orðið getur flætt á milli flokka. Það birtist t.d. í hlutverki lýsingarorðs í dæmum (5−6) en í hlutverki nafnorðs í dæmum (7−9).

Þátttakendur hafa tilhneigingu til að nota enskan rithátt orðsins. Í hundrað dæmum er orðið ritað með ʻch-ʼ en í tíu dæmum með ʻtj-ʼ. Það sést þó enn betur á svörum framar í könnuninni þar sem beðið er um slanguryrði yfir það að slappa af. Af 1183 svörum innihalda 776 grunnorðið chilla og tilbrigði við það en eins og sést á töflunni hér að neðan er enskur ritháttur orðsins mun algengari en sá aðlagaði, þ.e. tjilla. Númerin innan sviga tákna fjölda tilvika.



Eins og fram kemur í nýlegri grein um slangurkönnunina (sjá Ragnheiði Jónsdóttur 2021:403) þá er athyglisvert að bera saman ritmyndir ensku orðanna relax (N=50) og cozy (N=35) sem komu fyrir undir liðnum slappa af. Þrátt fyrir að relax birtist fimmtíu sinnum í tólf mismunandi myndum, oftar en ekki með íslensku endinguna ‘-a’ í nafnhætti, þá er ekki um annars konar aðlögun að íslenskum rithætti að ræða. Orðið birtist t.d. hvergi með ‘í’ í stað ‘e’ í stofninum, sem væri í samræmi við íslenskar ritvenjur. Lýsingarorðið cozy er hins vegar lengra komið í aðlögun sinni og birtist í myndum eins og kósí, kósý, kozý og kosy. Vísbendingar eru um að hlutfall aðkomuorða í Norðurlandamálunum sem ekki aðlagast málkerfinu að fullu sé að aukast (sjá t.d. Dahlman 2007: 130–131; Bijvoet 2020: 20–21) og því má velta fyrir sér hvort ritmyndir eins og relax og chilla verði einn daginn samþykktar í íslensku. Kannski gerist það ef við tjillum aðeins meira?


Heimildir:

Dahlman, Malin. 2007. „/Dju:s/, /jo:s/, flera whiskies eller whiskysorter. Anpassning av importord i finlandssvenskt och svenskt talspråk.“ Í Helge Sandøy (ritstj.): Stuntman og andre importord i Norden: Om udtale og bøjning, bls. 129–162. Novus, Ósló.


Bijvoet, Ellen. 2020. Attityder till spår av andra språk i svenskan. En forskningsöversikt. Rapporter från Språkrådet 15. Institutet för språk och folkminnen, Stokkhólmi.


Ragnheiður Jónsdóttir. 2021. Enska í slangurorðaforða unglinga á Íslandi. Skírnir 195(2): 379−408.


88 views0 comments

Comments


bottom of page