Ensk aðkomuorð sem hafa verið í málinu síðan fyrir seinni heimsstyrjöld eru flest komin úr breskri ensku en nýleg orð virðast yfirleitt eiga rætur að rekja til N-Ameríku (Guðrún Kvaran og Ásta Svavarsdóttir 2002). Niðurstöður slangurkönnunarinnar sem undanfarnar færslur hafa fjallað um gefa til kynna að unglingar á Íslandi sæki mikinn orðaforða í alþjóðlega dægurmenningu, sem jafnframt er fyrst og fremst amerísk. Mikill meirihluti þátttakenda sagðist nota ensku daglega (og átti þá ekki við skólanám), nær allir sögðust nota tölvur eða snjalltæki daglega og flestir merktu við tónlist, kvikmyndir og sjónvarpsþætti þegar spurt var um áhugamál.
Í svörum unglinganna má meðal annars greina áhrif málafbrigðis sem á uppruna sinn meðal afrískættaðra Bandaríkjamanna og kallast afrísk-amerísk enska (e. African American (Vernacular) English). Um málkerfi þess, orðaforða og framburð fjalla fjölmargar erlendar rannsóknir og fræðirit, enda er það margþætt og söguríkt (sjá t.d. Green 2002, Mufwene o.fl. 1998). Líkt og gildir um unglingamál og slangur, hefur afrísk-amerísk enska í gegnum tíðina gjarnan verið talin óæðri stöðluðu máli. Í málsamfélögum unglinga víða um heim þykir hins vegar eftirsóknarvert að tileinka sér einkenni hennar enda er hún áberandi í hip-hop/rapptónlist og fleiru sem höfðar til unglinga.
Rappararnir Future og Young Thug. Prince Williams/Getty Images
Í svörum þátttakenda slangurkönnunarinnar frá 2019–2020 má víða sjá þess merki.
1) Aiit imma head out
2) Imma fuck wit you
3) yo wasup dawg
4) Hvað segirðu, “Lil homie?“
5) pópó er að pulla up
6) bruh þetta er swag
7) Ait homie les get cranked
8) fór með bae í bíó um helgina
9) my boo er að koma á eftir
10) da bois, da popo
Dæmi (1) og (2) innihalda styttinguna imma sem kemur í stað I am going to/ I’m gonna, og óformlegu kveðjurnar í dæmum (3) og (4) innihalda orð eins og wasup og homie sem eru afar vinsælar meðal unglinga á Íslandi ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Í dæmum (5–9) er að finna fleiri orð sem virðast fengin úr afrísk-amerískri ensku. Í stuttu máli merkir orðið popo ‘lögregla’ og pull up ‘að mæta’, bruh er ‘félagi’ og swag þýðir meðal annars ‘flott’. Orðin bae og boo, sem koma fyrir í dæmum (8) og (9) og voru gjarnan nefnd í könnuninni, merkja bæði ‘kærasti/kærasta’. Frekari orðskýringar má til dæmis finna í athugasemdum notenda vefsíðna á borð við Urban dictionary og Slang dictionary. Í dæmi (10) má að lokum sjá hvernig ákveðna greininum the er skipt út fyrir da eins og algengt er t.d. í rapptónlist og nægir þar að nefna sem dæmi lagið All da smoke með röppurunum Future og Young Thug.
Heimildir:
Green, Lisa J. 2002. African American English: A linguistic introduction. Cambridge University Press, Cambridge.
Guðrún Kvaran og Ásta Svavarsdóttir. 2002. Icelandic. Í Manfred Görlach (ritstj.): English in Europe, bls. 82–107. Oxford University Press, New York.
Mufwene, Salikoko S., John R. Rickford, Guy Bailey og John Baugh (ritstj.). 1998. African-American English: Structure, history and use. Routledge, New York.
Comentarios