top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

Bara eitthvað

Updated: Jun 28, 2021

Svo virðist sem unglingar noti sviðsetningar í samtölum æ oftar og í meira mæli en fullorðnir. Með hugtakinu sviðsetning er átt við það sem í málfræðilegri umræðu er kallað bein tilvitnun / bein ræða, en líkt og Helga Hilmisdóttir (sjá hér), Deborah Tannen (1989) og fleiri hafa bent á er hér sjaldnast verið að hafa eitthvað orðrétt eftir fólki og því á hugtakið sviðsetning e.t.v. betur við. Mælendur virðast yfirleitt grípa til sviðsetninga í þeim tilgangi að skapa ákveðin hughrif, til að krydda frásagnir sínar eða hafa áhrif á skoðanir viðmælenda. Þeim geta fylgt hreyfingar, hljóðorð og leikræn tilþrif auk þess sem röddinni er gjarnan breytt. Yfirleitt er hugtakið notað um það þegar mælendur vitna í sjálfa sig eða aðra málhafa en hér er það einnig látið ná yfir lýsingar mælenda á hugsunum, textaskilaboðum og hljóðum, öðrum en orðum, sem fela í sér leikræna framsetningu.
Margt er áhugavert að kanna í tengslum við sviðsetningar í samtölum og eitt af því eru svokölluð inngangsorð, eða það hvernig mælendur gefa til kynna að beinnar ræðu sé að vænta (stundum nefnt tilvitnunarmerki). Niðurstöður BA-ritgerðar Evu R. Kamban (2021) um beinar ræður í unglingamáli benda til þess að unglingar noti orðræðuagnir eins og bara, svona og eitthvað oftar en sagnir eins og t.d. segja og spyrja á undan sviðsetningum. Eva fjallar um niðurstöðurnar í samhengi við BA-ritgerð Kolbrúnar Ýrar Bjarnadóttur (2009) en samkvæmt þeim virðast fullorðnir hafa ríkari tilhneigingu til þess að nota sagnir eins og segja í þessum tilgangi.


Ég ákvað að kanna sviðsetningar og inngangsorð í hlaðvarpsviðtali sem tekið var við tvær unglingsstúlkur á síðasta ári. Viðtalið er um 45 mínútna langt og inniheldur a.m.k. 110 sviðsetningar. Eins og sést á súluritinu hér að neðan þá er orðræðuögnin bara (63) langalgengust í kynningum á undan sviðsetningum í máli stúlknanna en næst á eftir er eitthvað (39).


Eftirfarandi brot úr viðtalinu sýnir vel hvernig sviðsetningar eru notaðar í frásögn til þess að endurskapa samtal. Hér lýsir önnur stúlkan samræðum sínum við tvo pilta sem hún hitti og vildi vita hvað væru gamlir. Sviðsetningar eru afmarkaðar með @-merki en inngangsorð feitletruð.


ég eitthvað @eruð þið báðir jafngamlir@ þá kemur John eitthvað @já ég er tvítugur@ og svo horfi ég á Michael @já þúveist ókei (.) bíddu ert þú líka tvítugur@ þá kemur Michael @já ég er tvítugur sko@ og ég alveg @er það (.) ertu tvítugur@ hann eitthvað @já@ síðan þegar þau eru farin þá spyr ég Michael að þessu ég eitthvað @fyndið það stendur átján eða nítján á þessu appi@ hann eitthvað @já ég veit ekki af hverju það stendur sko ég er tvítugur@ ég eitthvað @já fæddur tvöþúsund@ @já ég er fæddur tvöþúsund sko@

Eins og sést á brotinu hér að ofan eru inngangsorðin sem gefa til kynna að sviðsetninga sé að vænta ýmist eitt eða fleiri saman. Jafnframt eru dæmi um að þeim sé sleppt þar sem ekki þykir þörf á skýringum (sbr. síðustu sviðsetningu í textabrotinu). Taflan hér að neðan sýnir hvernig inngangsorðin í viðtalinu raðast saman og hversu oft hver kynning kemur fyrir á undan sviðsetningum í máli stúlknanna. Þar sést að orðin koma oftast fyrir stök en birtast þó allt að fjögur saman.
Heimildir:


Tannen, Deborah. 1989. Talking voices: Repetition, dialogue, and imagery in conversational discourse. Studies in Interactional Sociolinguistics 6. Cambridge University Press.


Eva Ragnarsdóttir Kamban. 2021. „Þau voru bara eitthvað oh my god...": Beinar ræður í unglingamáli. Óútgefin BA-ritgerð. Háskóli Íslands, Reykjavík.


Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir. 2009. Bein ræða í samtölum. Óútgefin BA-ritgerð. Háskóli Íslands, Reykjavík.

128 views0 comments

Comments


bottom of page