top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Bæææ skvís! Love ya!

Updated: Apr 8, 2021

Á myndinni sem fylgir þessari færslu má sjá Neil Armstrong kveðja jarðarbúa áður en hann stígur upp í geimskutlu sem á eftir að fara með hann og félaga hans til tunglsins. Þótt við séum oftast að kveðja fólk tímabundið og eigum jafnvel von á að sjá sama einstakling sama dag eru kveðjuathafnir eins og þessi einkar mikilvægar í samfélögum manna. Með kveðjunni slítum við samtalinu að sinni. Líkamstjáning, augnaráð, bros, orðaval og tónn spila stórt hlutverk þegar við kveðjum og það er mikilvægt að viðmælandinn svari í sömu mynt.



Innan rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál höfum við Ragnheiður Jónsdóttir lagt vefkönnun um slangur fyrir nemendur grunn- og framhaldsskóla. Enn er verið að vinna úr könnuninni en mig langaði aðeins að fjalla um svör þátttakenda við spurningunni „Hvernig kveður þú besta vinn þinn / bestu vinkonu?“ Hver nemandi mátti skrifa niður eins mörg orð og hann vildi. Einungis er fjallað um nokkur orð sem komu oft fyrir.

Samtals komu inn 1483 svör frá grunn- og framhaldsskólanemum af öllu landinu. Algengustu svörin eru sem hér segir:



Áberandi á þessum lista eru kveðjur sem komnar eru úr ensku, þ.e. kveðjur á borð við see you og love you. Einnig má benda á kveðjuna elska þig sem hingað til hefur verið tiltölulega óþekkt á Íslandi og er sennilega til komin vegna áhrifa frá ensku (þ.e. tökuþýðing á ensku kveðjunni love you!).

Annað sem er athyglisvert í svörunum er notkunin á kveðjum með ávörpum, eins og t.d. bæ honey, sjáumst elskan eða bless sæta. Stundum koma fyrir orð sem oft eru notuð í niðrandi merkingu eins og hóra og bitch. Eftirfarandi ávörp koma fyrir í kveðjunum: bró, maður, mahr, skvísa, hommi, meistari, gamli, geimer og queen. Langalgengasta orðið var bitch sem kom fyrir 37 sinnum í kveðjunum bæ bitch og sjáumst bitch.

Í þessari færslu er aðeins tæpt á nokkrum atriðum sem vöktu athygli mína þegar ég skoðaði efnið. Enn á eftir að fara yfir svörin og skoða hvort munur sé á kveðjum eftir landshlutum eða kynjum. Kveðjurnar segja nefnilega ýmislegt um samfélagið, hver við erum og hver tengsl okkar eru við viðmælanda.

Comments


bottom of page