top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Allir eru bara dáldið crazy!

Þegar hlustað er á samtöl sem tekin voru upp innan rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál má heyra ýmis aðkomuorð sem notuð hafa verið lengi í óformlegu talmáli. Dæmi um slík orð er lýsingarorðið kreisí sem m.a. er talið upp í Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál frá 1982. Í því brautryðjandaverki er orðið skilgreint á eftirfarandi hátt: „1 geggjaður, vitlaus. 2 frábær, framúrskarandi“.


Aðkomuorðið kreisí er því engan veginn nýtt í óformlegu íslensku máli. Oftast er orðið þó aðlagað að íslensku hljóðkerfi og rithátturinn lagaður að því eins og sjá má í fyrrnefndri slangurorðabók. Ef hlustað er á samtöl sem hljóðrituð voru innan verkefnisins ber þó nokkuð á því að orðið sé borið fram með skýrum amerískum hreim. Eftirfarandi brot er úr samtali sem tekið var upp í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þegar hér er komið sögu er hópurinn að spjalla um tónlist. Talið berst að rave-tónlist og umræðustjórinn biður nemendur um að útskýra fyrir sér hvað það sé (lína 1):
Guðfinna útskýrir fyrir umræðustjóra að rave sé eiginlega „partí ball“ þar sem mikið er af ljósum og spiluð er „intense“ tónlist (línur 4 og 7). Sunneva tekur undir og útskýrir að með ljósum eigi þær við „fullt af neónljósum“ (lína 8). Eftir nokkuð langa þögn bætir Guðfinna svo við að þetta sé „bara svona crazy“ og Sunneva tekur undir og segir að allir séu „bara dáldið crazy“ (lína 12). Báðar nota þær lýsingarorðið „crazy“ til að lýsa stemningunni og báðar nota þær orðið með skýrum amerískum hreim (merkt með $).


Með því að nota þennan framburð má segja að bæði Sunneva og Guðfinna framandgeri orðið kreisí eða taki það „aftur“ að láni. Með framburðinum sýna þær að orðið er nýtt og tilheyri amerískri menningu. Erfitt er að færa rök fyrir því að þær séu að nota orð sem kom inn í málið fyrir tæpum fjórum áratugum og hefur verið notað í óformlegu talmáli síðan þá. Framandi framburður skapar önnur hugrenningatengsl, að þessu sinni til amerískrar dægurmenningar eins og t.d. sjónvarpsþætti eða myndskeið á TikTok.


En það er ekki aðeins í samtölunum sem sjá má framandgervingu lýsingarorðsins kreisí eins og Ragnheiður Jónsdóttir (2021:67–69) fjallar um í ritgerð sinni. Ef litið er á slangurorðakönnun rannsóknarverkefnisins má sjá að nemendur í grunn- og framhaldsskólum landsins hafa tilhneigingu til að nota enska rithátt orðsins, með ýmsum tilbrigðum þó. Í könnuninni voru nemendur beðnir um að skrifa slanguryrði fyrir hugtakið brjálaður. Af 1077 svörum komu 361 tilvik af orðinu crazy/kreisí (33,5%). Tafla 1 sýnir rithátt orðsins:

Eins og sést á Töflu 1 er mikill meirihluti tilvika ritaður með enskum rithætti eða 75% og 80% ef með eru talin tilvik þar sem nemendur leika sér með ritháttinn. Þar má nefna dæmi á borð vð caryzy, CRAAAAAZY, cwasy, craaazy, crazyyy, craazzzyyy og crazzy. Í 10,6% tilvika notuðu nemendur íslenskan rithátt og í 1,4% blandaðan (t.d. kreizí og creisí).


Endurkomur eða framandgervingar orða á borð við þessa má finna víðar í efniviði rannsóknarinnar. Í því samhengi má nefna nafnorð á borð við gal, guy og shop sem koma fyrir bæði í hljóðrituðum samtölum og í slangurorðakönnuninni.Heimildir

Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson. 1982. Orðabók um slangur slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Reykjavík: Svart á hvítu.


Ragnheiður Jónsdóttir. 2021. „Fáðu þér eina smellý og chillaðu broski“: Um ensk aðkomuorð í slangurorðaforða unglinga á Íslandi. MA-ritgerð í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.

113 views1 comment

1 Comment


Pétur Már Sigurjónsson
Pétur Már Sigurjónsson
May 23, 2022

Fyrir forvitnissakir, hvernig er greinilegur amerískur framburður markaður hér? Er það einfaldlega í formi röddunar á /z/, eða býr fleira að baki?

Like
bottom of page