Í slangurorðakönnuninni sem lögð var fyrir unglinga skólaárið 2019‒2020 var spurt um orð yfir það að senda skilaboð í gegnum samfélagsmiðla. Um 68% svaranna sem bárust má flokka sem nýleg aðkomuorð úr ensku, eða 770 af 1137 svörum. Algengust voru orð sem innihalda enska orðið message ‘skilaboð’ en það kemur gjarnan fyrir í skammstöfunum eins og dm (direct message) og pm (private message). Sögnin text/texta var næst oftast nefnd og í þriðja sæti var snap/snappa.
Hátt hlutfall enskra orða kemur ekki á óvart hér enda eru heiti forrita og notendaviðmót á samfélagsmiðlum yfirleitt á ensku. Aftur á móti er athyglisvert að skoða rithátt þessara orða og notkun. Nokkrir af þátttakendum könnunarinnar bjuggu til dæmi sem sýna hvernig nota má orðin.
1) ég DM-aði hann á Instagram
2) Ég sendti þér message á facebook
3) ok, sendu mér PM.
4) ég var bara að texta/snappaþennan strák
5) þessi gaur textaði gelluna
6) ég þarf að texta mömmu
7) ok bro, þú bara textarmér seinna, byeooo
8) ég snappa bara til þín á eftir hvort ég nenni að koma
9) ég var að texta með þessari gellu á snap
10) sæti gæinn og stína eru að texta.
Eins og sjá má af þessum dæmum virðast aðkomusagnirnar ýmist notaðar með eða án forsetningarliðs auk þess sem þau sýna eilítið mismunandi fallmörkun andlaga. Flest innihalda þau þolfallsandlög (t.d. dæmi 1, 4, 5 og 6) en eins og sjá má í dæmi (7) virðist sögnin að texta einnig geta stýrt andlagi í þágufalli. Ástæðan kann að vera sú að þrátt fyrir að þolfall sé almennt talið sjálfgefið fall andlaga í íslensku þá er sögnin merkingarlega lík sögnum eins og að senda/skrifa e-um sem stýra þágufalli (sbr. umfjöllun Maling 2002 um merkingarfræðilega flokkun sagna). Hugsanlega gætir þó áhrifa úr ensku í dæmi (7) þar sem sögnin sést gjarnan og heyrist í samhenginu text me á ensku. Að minnsta kosti er ljóst að aðlögun hinna nýju tæknitengdu sagna að málkerfinu er enn í mótun og það sama gildir um rithátt þeirra. Í töflunni hér að ofan má sjá margar mismunandi ritmyndir sama grunnorðs og sums staðar eru greinarmerki notuð á óhefðbundinn hátt til að aðskilja grunnorð frá endingu (t.d. message-a, DMa, Dm/a og Dm’a). Að lokum má vekja athygli á því hvernig orðasambönd úr ensku slangri eru þýdd eða aðlöguð að íslensku, t.d. slæta/slæda/slid-a í dm (e. slide into DMs), skjóta message (e. shoot a message) og sexta (e. sexting > send a sexual text).
Heimildir:
Maling, Joan. 2002. Það rignir þágufalli á Íslandi: Sagnir sem stjórna þágufalli á andlagi sínu. Íslenskt mál og almenn málfræði 24, bls. 31–105.
Comments