Eins og ég nefndi í síðasta bloggi er þúst 18. algengasta orðið í samtölunum sem við höfum tekið upp í grunn- og framhaldsskólum landsins. Orðræðuögnin þúst hefur verið nokkuð algeng í íslensku talmáli a.m.k. síðastliðin 25 ár því hún kemur mjög oft fyrir í samtölum sem ég tók upp úr útvarpinu sumarið 1996.
Í eftirfarandi hljóðbroti hef ég klippt saman nokkur dæmi úr gagnagrunni rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál.
Á upptökunum má heyra að orðræðuögnin er oftast borin fram þúst, úst eða st, en einstaka sinnum er allt orðasambandið borið fram mjög skýrt. Þetta á sérstaklega við þegar orðræðuögnin kemur fyrir sem sér lota.
Þegar við vorum að hefja skráningu efnisins ræddum við mikið hvernig best væri að skrá orðræðuögnina. Þar sem efnið á að fara inn í leitarbæran gagnagrunn höfum við reynt að gæta samræmis þar sem því verður við komið. Í flestum tilvikum höfum við því notað ritmyndina þúst en stundum er ekki alveg ljóst hvort túlka eigi st-hljóð sem þúst eða sem sagt. Þar höfum við látið nægja að skrifa st.
Við skulum svo líta á tvö dæmi úr gagnagrunninum.
Fyrra dæmið er úr tölvuleikjasamtali tveggja grunnskólanema. Bogi og Svenni eru að spila Grand Theft Auto og tala saman í gegnum tölvuleikinn. Þeir eru því staddir í sama sýndarheimi þótt þeir séu í sitthvoru bæjarfélaginu. Samtal drengjanna snýst að miklu leyti um sjálfan tölvuleikinn. Þeir vinna saman að ýmsum verkefnum og þurfa því oft að leiðbeina hvor öðrum hvert þeir eigi að fara og hvað þeir eigi að gera. Í slíkum lotum kemur orðræðuögnin þúst eiginlega aldrei fyrir. Við og við ræða drengirnir svo persónuleg málefni eins og í dæmi 1 þar sem Svenni spyr félaga sinn Boga hver sé draumabíllinn hans. Í slíkum dæmum kemur þúst oft fyrir, stundum oftar ein einu sinni í sömu lotu.
Dæmi 2 er tekið úr hópumræðum í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu broti eru nemendur að tala um tónlistarsmekk unglinga. Önnur stúlkan í hópnum, Elín, segir frá því að hún hafi einu sinni búið á Vestfjörðum og að krakkarnir þar hafi haft svo sérstakan tónlistarsmekk og því ekki viljað hlusta á „venjulega“ tónlist. Hún nefnir svo sem dæmi að allir í bænum hafi „hatað“ tónlist Bubba Morthens. Baldur snýst Bubba til varnar og lýsir því yfir að það gangi bara ekki upp að búa á Vestfjörðum og hlusta ekki á lögin hans (lína 1).
Eins og dæmin tvö sýna er orðræðuögnin þúst oft notuð í klösum, þ.e. stundum líður langur tími á milli tilvika en svo koma inn á milli umræðuefni þar sem notkunin er tíð. Oftast kemur hún fyrir í runum þar sem mælendur eru að tjá eigin skoðanir. Í fyrra dæminu er mælandi að segja vini sínum frá bílnum sem hann langar að kaupa þegar hann verður eldri og í seinna dæminu eru viðmælendur ósammála um tónlist. Í báðum tilfellum má segja að mikið sé í húfi fyrir unglingana, því eins og Baldur segir seinna í samtalinu þá er það pínu eins og að koma nakinn fram að leyfa öðrum að fletta í gegnum lagalistana sína.
Comments