Til gamans tók ég saman lista yfir 30 algengustu flettiorðin í gagnagrunninum eins og hann er í dag. Til að einfalda málið skoðaði ég aðeins samtölin sem tekin voru upp í grunn- og framhaldsskólum landsins. Hversdagsleg samtöl bíða því betri tíma.
Nú er búið að skrá og fara yfir rétt rúmar 11 klukkustundir af efninu eða um 140.000 orð. Með einfaldri aðgerð get ég sótt lista yfir algengustu orðin og tíðni þeirra. Ég birti þetta með þeim fyrirvara að ég hef ekkert skoðað notkun orðanna eða flokkað þau neitt frekar. Til dæmis hef ég ekki gert greinarmun á við sem forsetningu og fornafni. Ég hef þó reynt að taka saman ólíkar beygingarmyndir, t.d. leitaði ég sérstaklega að öllum orðmyndum sagnarinnar vera og setti saman í eina tölu.
Listinn er fyrst og fremst hugsaður til að gefa einhverja mynd af tíðni orða í gagnagrunninum en endanleg niðurstaða á sennilega eftir að breytast eftir því sem efnið er rannsakað betur. Til samanburðar tilgreini ég einnig upplýsingar (röð) úr Íslenskri orðtíðnibók (1991) sem byggist á textum sem gefnir voru út á árunum 1980–1989.
Á listanum má sjá ýmis orð sem einnig lenda ofarlega í Íslenskri orðtíðnibók eins og t.d. samtengingin og og forsetningarnar í og á. Önnur orð má segja að eigi einkum heima í talmáli eins og t.d. já og mm/mhm. Þessi orð eru aðallega notuð sem endurgjafir og því fátíð í rituðum textum.
Áberandi er hve ofarlega orðræðuagnir lenda í unglingaefninu. Þar nægir að benda á orð eins og svona, bara, þúst, sko og eitthvað. Til að gæta samræmis við Orðtíðnibókina gerði ég ekki greinarmun á orðmyndunum einhver og eitthvað. Eins og ég hef þó bent á í fyrri bloggfærslum er orðið eitthvað mjög mikið notað í samtölunum og þá aðallega sem orðræðuögn. Í Orðtíðnibók lendir orðið í 59. sæti og er þar flokkað sem fornafn. Það er því full ástæða til að skoða þessi tilvik betur.
Heimildir
Íslensk orðtíðnibók. 1991. Jörgen Pind (ritstj.). Reykjavík: Orðabók Háskólans.
Comments