top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Þetta er svo fokking nett! Ensk orð í tölvuleikjum grunnskólanema

Undanfarna daga hef ég verið að skrá samtal tveggja fimmtán ára drengja sem eru að spila vinsælan tölvuleik sem heitir Grand Theft Auto. Samtalið er sérstakt að því leyti að drengirnir eru ekki staddir á sama stað í raunheimum en mætast í sýndarveruleika tölvuleiksins. Samtals hafa drengirnir tekið upp um fjórar klukkustundir af netspjalli en aðeins fjórðungur efnisins hefur verið skráður.Þetta efni er að mörgu leyti spennandi. Eins og niðurstöður öndvegisverkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis sýna ver töluvert stór hluti ungs fólks nokkrum klukkustundum á dag í tölvuleiki. Því er nauðsynlegt að skoða hvernig þessi samskipti fara fram.


Þegar ég var búin að ganga frá einu samtali af fjórum (1 klst.) varð ég mjög forvitinn um orðaforðann sem drengirnir nota. Ég kallaði því fram orðalista til að skoða algengustu ensku orðin. Samtals voru um 7300 orð í öllu samtalinu (1007 mismunandi orð). Það er ekkert sérstaklega mikið enda eru drengirnir uppteknir við margt annað en spjalla. Í raun snýst samtalið að miklu leyti um ferðir drengjanna um sýndarheiminn og tilraunir þeirra til að leysa þrautir og komast undan lögreglunni (meir um það síðar).


Af þessum 7300 orðum má flokka 786 orð sem ensk, eða um 10,8% af skráðum orðum í samtalinu. Að sjálfsögðu er oft vandasamt að flokka orðin og ef til vill mætti t.d. stroka út orð sem eru mjög algeng í íslensk talmáli eins og t.d. gæi og ókei. Eftirfarandi tafla sýnir orð sem koma fyrir fimm sinnum eða oftar.

Orð Flokkun Tilvik

fokk-orð upphrópun, lýsingarorð, sagnorð 73

ókei orðræðuögn 38

tsk upphrópun (oftast endurtekin) 24

yeah orðræðuögn 18

án djóks orðasamband 17

gæi nafnorð 16

shit upphrópun/nafnorð 14

yo upphrópun 14

ey upphrópun/orðræðuögn 11

æt (all right) upphrópun 10

job nafnorð 10

dispatch nafnorð/sagnorð 9

mission nafnorð 9

what orðræðuögn 9

gay lýsingarorð 6

weedfarm nafnorð 6

tjilla sagnorð 5

drip nafnorð 5

grænda sagnorð 5

nightclub nafnorð 5

pussies nafnorð 5

Vsco nafnorð 5

Áberandi á þessum lista eru annars vegar upphrópanir og orðræðuagnir og hins vegar orð sem tengjast tölvuleiknum. Sumar upphrópanir og orðræðuagnir hafa verið algengar í öðrum samtölum sem ég hef verið að skrá, eins og t.d. ókei og what (sem orðræðuögn). Orð eins og yo og yeah koma þó ekki fyrir í skólasamtölunum, þar sem unga fólkið ræðir við fullorðinn einstakling, og fokk og æt koma afar sjaldan fyrir.


Orðin sem tengjast leiknum koma ekki á óvart. Þar má finna orð eins og mission og dispatch sem tengjast grunnverkefnum Grand Theft Auto. Aðeins neðar má svo sjá fleiri svipuð orð eins og t.d. lúsa (4), continue (3), followa (3), leava (3), prófile (3), hostinn (2), requesta (1) og seifa (1).


Meiri umfjöllun um ensk orð í er að vænta þegar skráningu tölvuleikjaefnisins er lokið.

106 views0 comments

Commenti


bottom of page