top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

Þetta er eitthvað annað!



Eitt af því sem einkennir slangurmál unglinga í hinum vestræna heimi er tíð notkun orðasambanda og upphrópana úr ensku (t.d. ómægod og fokkoff) (sjá t.d. Andersen 2014). Því kemur ekki á óvart hve áberandi slíkir frasar eru í svörum nemenda við vefkönnun á slangri sem gerð var hér á landi veturinn 2019–2020. Hins vegar má þar einnig finna dæmi um orðasambönd sem virðast þýdd úr ensku og hafa náð vinsældum þannig. Dæmi um slíkt er eitthvað annað.


Enskumælandi fólk grípur stundum til frasans something else til að lýsa einhverju sem því þykir einstakt og til að leggja áherslu á þá skoðun. Samkvæmt veforðabók Cambridge Dictionary merkir það “unusual, especially extremely good or extremely bad” og skýringunni fylgir dæmið “This game is really something else!”. Orðasambandið eitthvað annað í hlutverki áhersluliðar er nýjung í íslensku og eflaust tilkomið vegna áhrifa frá ensku. Það heyrist æ oftar í máli ungs fólks um þessar mundir en hvort það mun festa sig í sessi í íslensku er óvíst enn þá. Eftirfarandi dæmi eru fengin úr svörum nemenda við slangurkönnuninn


1. Crazy, eitthvað annað imtense

2. Aron var eitthvað annað skakkur í gær

3. Þetta er e-ð annað hellað

4. eh annað klár

5. eh annað weird gæji

6. Va þú ert eitthvað annað

7. þú ert eitthvað annað (fyndin(n))

8. Eithvað annað glöð

9. Andri var svo vel postaður á því í gær, hann var ehv annað high og varð fokking wack

10. “hún var eh annað freðin í gær”

11. “Þessi gella er eitthvað annað sæt”

12. Heyrðu félagi þú ert eitthvað annað skemmtilegur, ekki vera leiður

13. "þessi gella er eitthvað annað heit án efa besti bossi sem ég hef séð"

14. look at that booty girl ert eithvað annað heit!


Að auki birtist orðasambandið eitthvað annað tvisvar sem stakt svar, annars vegar sem slanguryrði yfir lýsingarorðið BRJÁLAÐUR/-UÐ og hins vegar SKRÍTIN(N). eitthvað annað stendur þó yfirleitt með lýsingarorði og kemur þá í staðinn fyrir áhersluorð eins og mjög, rosalega og geðveikt.


Svo virðist sem eitthvað annað toppi jafnvel önnur áhersluorð. Þar sem slangur unglinga einkennist ekki síst af orðaforða sem felur í sér gildisdóma og áherslur (e. evaluative and intensifying vocabulary) (sjá Androutsopoulos 2005) kemur e.t.v. ekki á óvart að orðasamband sem þetta nái vinsældum. Hins vegar er athyglisvert að það skuli frekar ná útbreiðslu á íslensku en ensku hér á landi. Til samanburðar var orðasambandið something else hvergi að sjá í svörum unglinganna við slangurkönnuninni.


Í hljóðskránum hér að aftan má til gamans heyra hvernig ung samfélagsmiðlastjarna notar orðasambandið eitthvað annað í hlaðvarpsþætti.






Heimildir:


Andersen, Gisle. 2014. Pragmatic borrowing. Journal of Pragmatics 67: 17–33.


Androutsopoulos, Jannis. 2005. Research on Youth Language. Í Ammon, Dittmar, Mattheier og Trudgill (ritstj.): Sociolinguistics: An International Handbook of the Science of Language and Society 2, bls. 1496–1505. De Gruyter, Berlín.


Cambridge Dictionary. e.d. Something else. Sótt 17. ágúst 2021 á https://dictionary.cambridge.org/dictionary/english/something-else


Kristín Björg Björnsdóttir. 2021. "Það væri alveg næs sko." Áhersluorð í íslensku unglingamáli. B.A.-ritgerði í almennum málvísindum við Háskóla Íslands.

162 views0 comments

Comments


bottom of page