top of page
Search
  • Writer's pictureHelga Hilmisdóttir

Útaf mar er oft að læra og eitthvað

Eitt af því sem ég hef rekið augun í við skráningu talmálsefnis sem safnað var í rannsóknarverkefninu Íslenskt unglingamál er notkun samtengingarinnar útaf (því) sem virðist hafa tekið við af út af því að og vegna þess að. Á þetta hefur m.a. Kristín M. Jóhannsdóttir við kennaradeild Háskólans á Akureyri bent nokkrum sinnum á Facebook. Hún hefur aðallega tengt þetta við yngri kynslóðir þar sem breytinganna hefur enn ekki orðið mikið vart meðal háskólanema á Akureyri, a.m.k. ekki í ritmáli.


Íslensk nútímamálsorðabók skilgreinir orðasambandið út af því að á eftirfarandi hátt: „samtenging í aukasetningu, táknar ástæðu eða orsök, sem leiðir til röklegrar afleiðingar“. Notkunardæmin sem gefin eru upp eru tvö (feitletrun mín):


hún er óróleg út af því að kötturinn er týndur
hann sá ekki myndina út af því að það var uppselt

Í skólasamtölum verkefnisins, sem telur rúm 190.000 lesmálsorð, eru 111 dæmi um samtenginguna útaf (því að). Athygli vekur að mikill meirihluti þessara tilvika, eða 101 tilvik, er borinn fram sem úta(f) og í þeim tilvikum sem eftir standa er nafnháttarmerkinu iðulega sleppt (þ.e. út af því). Aðeins eitt tilvik samtengingarinnar vegna þess að er að finna í öllu gagnasafninu.


Við skulum kíkja á þrjú brot úr samtölum sem sýna notkun útaf. Í fyrsta brotinu er umræðustjóri að spyrja nemendur út í styttingu framhaldsskólans. Áður en brotið hefst hefur einn nemanda haft orð á því að styttingin hafi haft slæm áhrif á félagslíf nemenda.


Umræðustjóri reynir að beina umræðunni aftur inn á fyrri braut með því að ítreka að einhver hefði minnst á félagslífið (lína 6). Samtímis jánkar Hera þó að hún dragi jafnframt seiminn sem virðist gefa til kynna að svarið liggi ekki alveg beint við (lína 5). Hún útskýrir svo fyrir umræðustjóra að það sé erfitt að hitta vini utan skóla (lína 8). Hún heldur svo strax áfram og bætir við útskýringu, þ.e. að þetta skýrist af miklu heimanámi (lína 8–9). Þessi seinni hluti lotunnar, þ.e.a.s. útskýringin á því að erfitt geti verið að hitta vini eftir skóla, hefst á samtengingunni útaf sem borin er fram með brakrödd. Slík raddbeiting kemur reglulega fyrir með samtengingunni útaf, a.m.k. í gögnunum sem ég hef undir höndum.

Einnig er nokkuð algengt að útaf fylgi stuttar pásur. Í eftirfarandi broti er Umræðustjóri að spyrja nemendur út í rokksveitir og áhuga ungra Íslendinga á slíkri tónlist.

Samkvæmt Axel er ekki mikill áhugi meðal ungs fólks á rokktónlist. Hann bendir þó á að hann sé sjálfur með lagasafn á Spotify fyrir þessa tegund tónlistar (lína 1). Strax að lokinni endurgjöf frá umræðustjóra (lína 2) bætir Axel við útskýringu: pabbi hans var alltaf að setja hann inn í rokkið og spyrja hann út úr. Útskýringin hefst á orðasambandinu bara útaf. Þar á eftir kemur stutt þögn í 0,4 sekúndur áður en Axel útskýrir mál sitt.


Að lokum er hér svo eitt brot úr tölvuleikjasamtali tveggja fimmtán ára drengja á höfuðborgarsvæðinu. Áður en brotið hefst biður Bogi Svenna um að hjálpa sér við verkefni í leiknum. Hann skiptir svo um skoðun og segist geta ráðið við verkefnið sjálfur ef „það er enginn toxic“ í leiknum, þ.e.a.s. spilarar sem svindla og skemma fyrir öðrum (lína 1–2).

Svenni telur að enginn erfiður spilari taki þátt í leiknum þessa stundina (lína 5). Eftir einnar sekúndu þögn tekur Bogi aftur til máls þar sem hann reynir að útskýra af hverju hann geti leyst verkefnið einn ef enginn spilari er til vandræða. Lotan hefst á orðræðuögninni og samtengingunni úta borið fram með brakrödd. Eftir örstutta pásu kemur svo skýring Boga (lína 7).


Eins og sjá má á tilvikum sem finna má í gagnagrunni rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál og á þessum þremur dæmum sem hér hafa verið til umfjöllunar virðist samtengingin út af því að hafa verið skipt út fyrir úta(f). Einnig virðist algengt að samtengingin sé borin fram sem sér tónfallseining (e. intonation unit) og að henni fylgi oft pásur eða byrjun á nýrri einingu. útaf er að þessu leyti mjög ólík út af því að sem virðist yfirleitt vera hluti af sömu tónfallseiningu og segðin sem á eftir kemur.

Eftirfarandi mynd er gerð með greiningarforritinu Praat og sýnir tónhæð segðarinnar í dæmi 3, línu 7 (e. intonation curve).

Umfjöllunin um útaf hér að framan eru aðeins hugleiðingar sem skutu upp kollinum þegar ég var að skrá gögn í talmálsbanka verkefnisins. Hér er því mörgu ósvarað sem áhugavert væri að skoða nánar. Meðal annars þarf að fara gaumgæfilega yfir öll tilvik sem koma fyrir og fara vel yfir tónfall, hvort samtengingunni fylgi pása, hvort hún sé borin fram með brakhljóði og hvernig segðin sem á eftir kemur lítur út.Heimildir


Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.


Íslenskt unglingamál. Talmálsbanki vistaður við Oslóarháskóla.

Comments


bottom of page