top of page
Search
  • Writer's pictureRagnheiður Jónsdóttir

„Ég held að fatastíllinn hennar er skrítinn sko“

Þegar ég ræði um málfar unglinga við eldra fólk segist það gjarnan hafa tekið eftir því að viðtengingarháttur sé á undanhaldi í máli ungs fólks. Lauslegar athuganir á gagnagrunni rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál benda þó ekki til þess að miklar breytingar hafi átt sér stað.

Árið 2011 gerði Hildur Ýr Ísberg samanburðarrannsókn í tengslum við BA-ritgerð sína til að kanna hvort viðtengingarháttar biðu sömu örlög í íslensku og í öðrum Norðurlandamálum, þar sem hann er nánast horfinn. Niðurstöðurnar bentu til þess að tilfinning 13‒14 ára unglinga fyrir viðtengingarhætti væri mun minni en tilfinning fólks um fimmtugt eða eldra og í viðtali sagði Hildur, sem kennt hafði lengi í unglingadeild, niðurstöðurnar ekki koma sér á óvart.


Eftirfarandi lotur er að finna í nýlegum hljóðupptökum rannsóknarverkefnisins Íslenskt unglingamál en þær sýna dæmi um sagnir í framsöguhætti sem ættu samkvæmt hefðbundinni málvenju að standa í viðtengingarhætti (feitletraðar). Mælendur eru nemendur í ýmist efri bekkjum grunnskóla eða í framhaldsskóla.


A) ég held að fatastíllinn hennar er skrítinn sko (Stúlka útskýrir skoðun sína á tónlistarkonu)

B) ég fékk í Svíþjóð þúst spurði (0.2) hvort að ég (0.4) borða mörgæsir eða eitthvað (Drengur ræðir hugmyndir útlendinga um Ísland)


C) mamma fílar þá líka skilurðu þótt hún er ekkert mikið fyrir svona tónlist en hún fílar þá skiljiði henni finnst það ógeðslega svona góð

(Stúlka ræðir um hljómsveit)


D) þannig ég held að það vegur meira hlutfallið á móti þessu íslenska hh þótt maður er alveg með kannski með (0.4) mörg lög frá íslenskum röppurum (Stúlka ræðir um rapptónlist)


E) Hvort við virkilega erum eitthvað að græða eitthvað á þessu að vera að samþykkja þetta

(Drengur um þriðja orkupakkann)


Niðurstöður rannsóknar Hildar Ýrar (2011) bentu til þess að málnotendum þætti viðtengingarháttur þátíðar flóknari en viðtengingarháttur nútíðar og að óalgengar og óreglulegar sagnir reyndust þeim erfiðari en algengar sagnir og reglulegar í beygingu. Til að mynda var sögnin bjóða prófuð með eyðufyllingaraðferð og þá voru einungis 8,9% unglinganna sem skrifuðu sögnina í viðtengingarhætti þátíðar, sem var rétt svar samkvæmt hefðbundinni málvenju, en það gerðu 89,5% af eldri þátttakendunum. Munurinn mældist ekki eins mikill þegar algengari sagnir voru prófaðar.


Í fornu máli höfðu sagnir í viðtengingarhætti sérstakar endingar í ríkari mæli en í nútímamáli og því var gerður skýrari greinarmunur á framsöguhætti og viðtengingarhætti til forna (Ásta Svavarsdóttir 2001). Mögulega munu skilin á milli þessara tveggja hátta verða enn ógreinilegri í íslensku máli með tímanum og viðtengingarháttur jafnvel hverfa en þrátt fyrir að ýmis dæmi um notkun framsöguháttar í stað viðtengingarháttar hafi fundist í hljóðupptökum rannsóknarverkefnisins þá eru dæmin um hefðbundna notkun viðtengingarháttar þó enn þá mun fleiri. Samkvæmt niðurstöðum doktorsritgerðar Finns Friðrikssonar (2008) um nútímamálfræði eru frávik frá staðli málsins raunar mun sjaldgæfari en almennt er talið og beygingakerfi málsins mjög stöðugt.Heimildir:


Ásta Svavarsdóttir. 2001. Beygingafræði. Alfræði íslenskrar tungu [upphaflega geisladiskur]. Þórunn Blöndal og Heimir Pálsson (ritstj.). Lýðveldissjóður og Námsgagnastofnun, Reykjavík. Sótt á http://ait.arnastofnun.is/grein.php?id=107.


Finnur Friðriksson. 2008. Language change vs. stability in conservative language communities: A case study of Icelandic. Doktorsritgerð frá Gautaborgarháskóla, Gautaborg.


Hildur Ýr Ísberg. 2011. Viðtengingarháttur: Lifandi eða dauður? Rannsókn á notkun viðtengingarháttar í íslensku nútímamáli. Óútgefin BA-ritgerð. Háskóli Íslands, Reykjavík.


Hólmfríður Gísladóttir. 2011. Viðtengingarháttur á miklu undanhaldi. Sótt á: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1366841/.

96 views0 comments

Comments


bottom of page